Nágrannar
24.8.2010 | 17:38
Mig dreymir um að eignast hús, og helst stóra jörð í kring þar sem maður þarf lítið sem ekkert að eiga við nágranna. Er orðin svo þreytt á því að þurfa að búa með fólki sem tekur ekki tillit til annarra. Við Alison í kjallaranum vorum ákaflega ánægðar þegar Rita hin klikkaða flutti loks á burt. En við hefðum svo sannarlega valið aðra í staðin en þá sem við fengum inn. Þau eru kannski ekki mjög slæm og ekkert á við klikkið í Ritu, en þau eru ung hjón sem virðist skítsama um allt í kringum sig. Þau búa sem sagt á miðhæðinni í húsinu mínu. Dæmi:
- Húsið er með tvöfaldri útihurð þar sem ytri hurðin er þunn glerhurð sem hægt er að opna þannig að gluggi er á hurðinni. Gott til að lofta út. Í helmingi skipta loka þau ekki þessari hurð heldur skilja hana eftir opna. Þetta er hurð! Hversu erfitt er að muna að loka henni. Þetta þýðir að um leið og hvessir þá skellist hurðin aftur og aftur í vegginn. Svefnherbergi Alison er beint undir útidyrunum og hún getur ekki sofið þegar þetta gerist. Hún hefur beðið þau um að loka hurðinni, þau lofuðu, og strax daginn eftir skilja þau hurðina eftir opna.
- Þau settu risastóra útiplöntu á stigapallinn fyrir framan húsið án þess að spyrja okkur. Þar að auki þrengir þetta að póstlúgunni sem nú þegar er pínulítil og næstum niðri við jörð. Ég er hissa á að pósturinn hefur ekki beðið um að plantan sé færð.
- Þau settu sitt risastóra útigrill við bakdyrnar að þvottahúsinu þannig að stígurinn að dyrunum þrengist um helming. Þau þurfa aldrei að nota þessar dyr því hjá þeim er innangengt í þvottahúsið, en þetta er eina leið mín í þvottahúsið og ég þarf að burðast hjá með stóra körfu með þvotti. Þar að auki er hjólið mitt í geymslunni og erfitt að koma því framhjá. Þeim er auðvitað alveg sama. Ekki þeirra vandamál.
- Húsið er reyklaust og þau sögðust þegar þau fluttu inn ekki reykja. Síðan þá hafa þau ítrekað reykt. Reyndar ekki inni, en við innganginn, beint fyrir utan svefnherbergisglugga Alison. Hún bað þau að reykja frekar bakdyramegin þar sem þau hafa svalir. Strax daginn eftir reyktu þau aftur fyrir framan gluggann hennar.
- Stofan þeirra er beint fyrir ofan stofu og herbergi Alison (og beint undir mínu svefnherbergi). Þau eru með gamalt parket. Alison spurði hvort það væri séns að þau settu mottu á gólfið til að minnka hljóð aðeins því hún heyrir akkúrat allt sem sagt er og hvert fótspor líka. Þau sendu henni póst þar sem þau sögðust vera að leita að mottu, en bættu svo við skilaboðum sem hljómuðu nokkurn veginn svona: Við bjóðum fólki heim þegar okkur sýnist so fokk off. Ókei, þau sögðu það ekki alveg svo en það var tónninn í skilaboðunum.
- Ó og ég gleymdi að segja að þau skipta endurvinnslunni heldur ekki niður heldur hrúga öllu í blá kassann sem er fyrir plast og gler. Þangað settu þau líka pappír og dagblöð, sem eiga að fara í mismunandi poka. Og ekki nóg með það, þau rígfylltu þetta svo að ekkert pláss var fyrir endurvinnslu mína og Alison. Ég varð að fara og sortera endurvinnsluna þeirra svo þetta yrði ekki allt skilið eftir því þeir sem sækja endurvinnsluna myndu ekki taka þetta svona ósorterað. Ég ætla að sjá hvað þau gera næst áður en ég tala við þau. Kannski kunni annað þeirra reglurnar og kenndi hinu. Ég vona það.
- Og svo rífast þau eins og hundur og köttur og yfirleitt inni í stofu þannig að Alison heyrir hvert einasta orð og ég heyri nóg til missa einbeitinguna frá lærdómnum.
Ef þau væru tvítug og rétt að byrja líf í burtu frá foreldrum þá myndi ég kannski skilja svona eigingirni, en þetta fólk er alveg örugglega um þrítugt og ætti að hafa þroskast nóg. Æi, ég vona að þetta lagist. Sérstaklega Alison vegna sem þarf að þola miklu meira frá þeim en ég.
Athugasemdir
Eru þetta nokkuð Íslendingar? Gæti verið saga úr kópavoginum.
LS (IP-tala skráð) 24.8.2010 kl. 21:32
Nei, ekki Íslendingar. En ég fékk minn skerf að hræðilegum nágrönnum á Íslandi. (Og nokkrum frábærum.)
Kristín M. Jóhannsdóttir, 24.8.2010 kl. 22:00
Það vantaði ekkert í upptalninguna nema "Stunur & beddabrak" l´líkt og hélt fyrir þér vöku í fríinu í USA! (Ætli þau hafi ekki bara verið "pornopar" að æfa sig?!)
En sárvorkenni ykkur auðvitað.
Magnús Geir Guðmundsson, 24.8.2010 kl. 22:47
Sæl frænka.
Leiðinlegt að heyra af vandræðum þínum með nágranna. Það er fólk á efri hæðinni við mig sem eru með börn og þau eru hávaðaseggir. Það heyrist líka ógurlegt tramp í gólfinu, enda helvítis parkett.
Ég leysti vandann með því að kaupa mér einbýlishús með stórum bílskúr, breytti bílskúrnum í íbúð og svo leigi ég húsið. Að vísu er þetta enn í vinnslu, en kemur vonandi einn daginn...
Kveðjur til Sendibílskúfu
Sigurjón, 25.8.2010 kl. 00:01
Sæl Kristín. Eg sé ekki annað, en þau brjóti allar húsreglur og séu einfaldlega burtræk úr húsinu. Láttu verða að því.
Björn Emilsson, 25.8.2010 kl. 04:34
Ritu til baka!
Skil hvað þú ert að ganga í gegnum, það er fátt til ráða (nema róttækir hlutir með óvissum afleiðingum, s.s. þú skilur eftir græjurnar í botni með eitthvað ömurlegt lag í Replay eða þú hljóðritar rifrildin þeirra og samtöl sem þú heyrir og setur þau á Youtube osfrv.) nema drífa af ritgerðina og koma þér út úr húsinu og eitthvert út í heim :)
Heyrumst fljótlega...
Rut (IP-tala skráð) 25.8.2010 kl. 10:54
Þú hefur greinilega lent í nágranna deilum áður. Ég er 52 og hef aldrei lent í nágranna deilum. Kannski ert þú erfiði nágrannin?
Jón Páll Haraldsson, 25.8.2010 kl. 16:21
Jón, ég hef reyndar aldrei lent í nágrannadeilum því til þess að deila þurfa báðir aðiljar að taka þátt. Ég hef hins vegar lent í vondum nágrönnum. Og nei það hefur ekki verið mér að kenna. Í eitt sinn var til dæmis sjómaður við hliðina á mér í blokkaríbúð og í hvert sinn sem hann var í landi fór hann á fyllerí, kom svo heim um fjögur leytið á næturnar og setti græjurnar í botn. Það voru 14 íbúðir í blokkinni og þessar nætur svaf enginn. Ítrekað var hringt á lögguna en það dugði aldrei. Hann settir græjurnar í botn um leið og löggan var farin, enda gerðu þeir aldrei neitt nema segja honum að slökkva á tónlistinni. Að lokum var farið með málið í lögfræðing og honum sagt að ef hann hætti þessu ekki þá yrði hann borinn út, þrátt fyrir að hann ætti íbúðina. Ég er nokkuð viss um að ég hafi verið saklaus þarna af því að vera vondi nágranninn. Þú ert bara svona heppinn að hafa aldrei lent í neinu.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 26.8.2010 kl. 15:13
ekkert húseigendafélag í Kanada? Þetta eru leiðindamál að díla við :(
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 26.8.2010 kl. 19:26
Jújú. Við getum sjálfsagt gert eitthvað í málinu ef þetta lagast ekki. Ætlum að bíða og sjá hvort eitthvað breytist.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 26.8.2010 kl. 20:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.