Bráðnun íss hefur marga ókosti í för með sér
30.8.2010 | 21:56
Eins og fram kemur réttilega í fréttinni hefur þetta skipsstrand sett aukinn þrýsting á kanadísk stjórnvöld um að bæta björgunaraðstæður í norðurhluta landsins. Þessi þörf verður æ brýnni því meir sem ís bráðnar í norðrinu því fjölmargar skipaleiðir hafa nú opnast sem áður voru undir ís.
Ef ég skildi kanadísku blöðin rétt þá er ástæða þess að þetta sker var ekki á korti einfaldlega sú að leiðin hefur verið undir ís og enginn veit í raun hvernig sjórinn lítur út á stóru svæði sem skipa fara nú um. Og vegna þess að lítið hefur verið siglt þarna um áður hefur ekki verið þörf á sérstökum viðbúnaði á svæðinu.
Nú er rætt um að koma upp einhverri aðstöðu þarna svo hægt sé að bregðast við á skemmri tíma en gerðist í þetta sinn. Hvað hefði t.d. gerst ef skipið hefði verið að sökkva? Eða ef veður hefði verið slæmt?
Bráðnun íss mun hafa margt í för með sér hvað viðkemur skipaleiðum og stöðu landanna í norðri. Áður hefur t.d. verið siglt í gegnum alþjóðasvæði sem tilheyra engum, en nú er að opnast leið sem liggur á milli kanadísku eyjanna og sem myndi stytta verulega siglingu frá Kyrrahafi til Atlantshafs. Sú leið liggur hins vegar algjörlega innan kanadísks svæðis sem mér skilst að hafi vakið nú þegar einhverja úlfúð á milli og Kanadamanna og Rússa, og að ég held Norðmanna.
Bráðnun íssins mun hafa verst áhrif á ísbjörninn og önnur dýr sem lifa í norðrinu, en hún á eftir að hafa svo margvísleg önnur áhrif líka, sem maður er virkilega minntur á þegar svona hlutir gerast eins og strand skipsins á föstudaginn. Við erum líka farin að sjá risastóra ísjaka brotna, eins og gerðist á Grænlandi fyrir skömmu. Kannski annað Titanicslys sé yfirvofandi.
Strandaði í Norður-Íshafinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Kristín.Það er rétt að við bráðnun íssins á Norðurslóðum hefur töluverð áhrif.Nýjar siglingaleiðir opnast.Eyjar og sker birtast,þar sem áður voru ísbreiður.
Þá er full ástæða til sjómælinga og gera sjókort,sem eru áreiðanlegri.
Það er rétt hjá þér að víða má reikna með hafísreki.Stórir jakar losna frá Grænlandsjökli og fara jafnvel í langt ferðalag.Það fer eftir bráðnun þeirra.
Enginn er kominn til að segja,hvort eða hvenær verður alvarlegt slys.Því er öllum þjóðum,sem liggja að Norðurslóðum skylt að gera ráð fyrir því versta og sameinast um að björgunarstöðvar verði dreifðar um svæðin,með öflug björgunartæki.
Ingvi Rúnar Einarsson, 30.8.2010 kl. 22:57
Takk fyrir innlitið Ingvi. Og ég er algjörlega sammála þér að þjóðirnar sem eiga land þarna að verða að taka sig saman og gera alvöru ráðstafanir.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 30.8.2010 kl. 23:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.