Kaffihúsamenning
3.9.2010 | 21:08
Þegar ég var að alast upp voru engin kaffihús á Akureyri. Og ég efast um að nokkur hefði farið á kaffihús ef þau hefðu verið opnuð. Viðhorf fólks þá var svolítið þannig að maður gæti bara borðað (og þar með drukkið kaffi) heima hjá sér. Ef fjölskylda sást á veitingastað (sem þá var helst Bautinn) þá var viðhorfið svolítið svona: "Jæjajá. Svo hún nennir ekki að elda." Í minni fjölskyldu var ekki farið á veitingahús. Það kom þó fyrir kannski annan hvorn mánuð að keyptar voru pylsur í Nesti. Ein pylsa á mann, ein kók. Þannig splæsti okkar fjölskylda á sig. Einu sinni bað ég um hamborgara. Pabbi leit hneykslaður á mig: "Ertu vitlaus? Hann kostar 80 kr." Þar með var það ekki rætt frekar. En stundum fékk ég hálfétinn hamborgara frá bróður mínum sem keypti stundum þannig góðgæti þegar hann var á rúntinum. Ef hann gat ekki klárað borgarann keyrði hann heim og gaf mér afganginn. Það voru sæludagar. Og fallega gert af bróður mínum.
En ég ætlaði að tala um kaffihús en ekki veitingastað og skyndibita.
Í fyrsta sinn sem ég kom á kaffihús var það á kaffihúsið á torginu sem Bárður sögukennari opnaði. Hét það ekki bara Torgið, eða Kaffitorgið? Eitthvað svoleiðis. Held það hafi verið fyrsta kaffihús á Akureyri. Ég fór þangað einmitt með Bárði og bekknum mínum. Við vorum á öðru ári í MA og Bárður bauð öllum bekknum í kaffi. Ég átti þá gamla brúnappelsínugula Lödu sem reyndist mér vel. Helmingnum af bekknum var troðið í Löduna og hinum helmingnum í bíl bekkjarbróður míns. Held reyndar að einhverjir hafi þurft að labba en þetta var nú ekki langt. Ég man enn eftir því hversu lágt bíllinn sat, fullur af menntskælingum. Ef við keyrðum yfir ójöfnu hentist bíllinn upp og niður því hann sat á hjólunum og gat ekkert gefið eftir. En alla vega, við fórum niður á torg og á kaffihús Bárðar þar sem við sötruðum aðallega kakó enda ekki allir farnir að drekka kaffi.
Síðan leið langur tími þar til ég fór aftur á kaffihús og sótti þau svo sem aldrei reglulega - ekki einu sinni þegar ég varð virðulegur háskólanemi.
Í Winnipeg fórum við Tim (minn þáverandi) stundum á kaffihús í götunni okkar, og þá sérstaklega ef við vorum að vinna að einhverju saman. Staðurinn hét Second Cup og er kaffihúsakeðja í Kanada, þótt ekki nái þeir reyndar til Vancouver þar sem Starbucks, Blenz og Tim Hortons eru allsráðandi. Blenz og Tim Hortons eru sull, allt of þunnt kaffi (mömmu myndi líka það) en Starbucks má eiga það að kaffið er sterkt og gott.
Það var ekki fyrr en ég flutti til Vancouver og fór aftur í háskólanám sem ég fór að stunda kaffihúsin. Ekki til að sitja, spjalla, reykja og drekka kaffi, eins og gjarnan er með aðra. Ja, reyndar bæði sit ég og drekk kaffi, en ég fer sjaldan á kaffihús til að hitta fólk og aldrei til að reykja. Enda reyki ég ekki og hef aldrei gert, og þar að auki eru reykingar ekki leyfðar á kaffihúsum í Vancouver, né öðrum opinberum stöðum. Meira að segja er búið að banna reykingar í almenningsgörðum.
Nei, ég fer á kaffihús til að læra. Mér gengur betur að einbeita mér að því sem ég er að gera á kaffihúsi en heima hjá mér. Hér get ég reyndar slæðst til þess að fara á netið eða blogga (eins og núna) en ég tek alla vega ekki upp gítarinn eða fer að horfa á sjónvarpið eins og gerist oft heima. Ég get engan veginn lært á bókasöfnum. Verð hreinlega niðurdregin og syfjuð ef ég sit þar. Sennilega of hljótt í kringum mig. Skólinn er heldur ekki nógu ríkur til að útvega framhaldsnemum vinnuaðstöðu. Við höfum reyndar tvö herbergi í deildinni hjá okkur þar sem nemendur geta setið og lært, en maður deilir því með öðrum nemum og það hefur aldrei reynst mér vel.
Þess vegna fer ég sem sagt á kaffihús, drekk kaffi eða te (sem kostar auðvitað heilmikið þegar safnast saman) og skrifa mína ritgerð. Aðallega fer ég á tvö kaffihús. Annars vegar Starbucks í nágrenninu og læri ég yfirleitt vel þar. Tónlistin er passlega hátt spiluð til að skapa stemningu en truflar ekki. Húsnæðið er líka þannig að þótt einhver sitji á næsta borði og spjalli þá truflar það ekki heldur. Nema þegar fólk er í símanum - einhverra hluta vegna talar það alltaf hærra í síma en þegar það talar við fólk beint á móti sér. Hinn staðurinn heitir Cuppa Joes, við botn brekkunnar minnar, og það tekur um 25 mínútur að ganga þangað. En vel þess virði. Þangað fer ég oft og sit þar klukkutímunum saman. Er farin að þekkja starfsfólkið. Þetta er góður staður því hann er ekki of vinsæll þannig að oft er nóg næði.
Ég hef þó lært að ekki þýðir að ætla sér að læra á kaffihúsum um helgar. Þá fara mömmur á kaffihús með börnin sín (ég á ákaflega erfitt með að skilja hvers vegna) og þá er alltof mikill hávaði til þess að læra. Þannig að, þá daga verð ég bara að hundskast til að læra heima hjá mér.
En nú er skólinn að byrja í næstu viku og ég verð aðstoðarkennari í einum áfanga, LING 311 sem er þriðja árs áfangi í hljóðkerfisfræði. Það þýðir að ég þarf að fara yfir heimaverkefni í hverri viku, svo og miðsvetrarpróf og lokapróf. Og þá koma kaffihúsin sér nú heldur betur vel!!!
Annars ætlaði ég nú upphaflega að skrifa um fólkið sem kemur á kaffihúsin og það sem maður heyrir og sér þar, en það verður bara að bíða annars bloggs.
Athugasemdir
Er það ekki rétt munað hjá mér að það var kaffitería á KEA í gamla daga.?
Númi (IP-tala skráð) 3.9.2010 kl. 22:56
Ætli terían hafi ekki verið nokkurs konar tengill á milli veitingahúss og kaffihúss. Alla vega man ég eftir því að hafa farið þangað sem unglingur og borðað franskar. Og yfirleitt var þar borinn fram matur. Ég er ekki viss um að þeir hafi nokkurn tímann verið beinlínis kaffihús eingöngu, nema það hafi gerst síðar. Annars er ég ekki best til að tala um kaffihús, fór í raun aldrei á þau þegar ég bjó fyrir norðan. Nú á Akureyri hins vegar mitt uppáhaldskaffihús - Bláu könnuna.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 3.9.2010 kl. 23:21
Sæl Kristin.
skemmtileg grein um kaffihús mín minning er mjög svipuð og þín:) Vertu alltaf velkomin á Bláu könnuna.
Kv. Gréta (tvíbbó) :=)
Gréta Björnsdóttir (IP-tala skráð) 6.9.2010 kl. 22:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.