Ný önn hafin
9.9.2010 | 05:06
Í dag er aðfangadagur skóla. Á morgun hefst kennsla. Reyndar hófst hún á þriðjudaginn en þá var kynningardagur í deildinni og ég slapp því. Ég er löngu búin að taka alla áfanga sjálf en maður þarf að vinna fyrir sér. Ég er aðstoðarkennari í áfanga 311 hljóðkerfisfræði. Ég hefði getað kennt áfangann því deildina vantaði kennara og ég hef aðstoðað við þennan áfanga tvisvar sinnum áður, en málið er að kennarinn fær sama og ekkert meir borgað en aðstoðarkennarinn. Og þótt aðstoðarkennarinn þurfi að fara yfir öll heimaverkefni og próf þá er það mun auðveldara en að þurfa að undirbúa fyrirlestra. Ef mig vantaði kennslureynslu hefði ég kannski tekið þetta að mér, en ég kenndi við Manitóbaháskóla í fjögur ár, við MA í eitt ár, og var stundarkennari við HÍ í nokkrar annir. Þannig að ég hef þokkalega starfsreynslu. Og af því að ég er að reyna að klára ritgerðina mína á þessari önn þá er mikilvægara að hugsa um tíma en reynslu.
Annars er kerfið býsna þunglamalegt. Maður þarf að skila inn ritgerðinni tveim mánuðum áður en maður fær að verja. Og tveim mánuðum þar á undan þarf að tilnefna utanaðkomandi dómnefndarmann. Ég hef lengi stefnt að því að verja í desember, og til þess að geta það þyrfti ég að skila inn ritgerðinni 15. október. Það er eftir aðeins fimm vikur. Óvíst að ég nái að klára ritgerðina fyrir þann tíma því frágangurinn einn og sér er seinlegur. Allt þarf að vera samkvæmt ákveðnum stöðlum. Í dag frétti ég svo að sá sem valinn var sem utanaðkomandi dómnefndaraðili er ekki tiltækur fyrir desembervörn. Það þýðir annaðhvort að velja nýjan aðila eða þá að verja í janúar. Síðari kosturinn er líklega betri því það gefur mér aðeins meiri tíma til ljúka skriftum án of mikils stress. Líka af því að það er ekki eins og ég þurfi að gera eitthvað annað í janúar. Sem sagt, stefnir í janúarvörn.
Athugasemdir
Til hamingju.
BH
Bernharð Haraldsson (IP-tala skráð) 9.9.2010 kl. 10:34
Rakst inn á þessa síðu af einskærri tilviljun þar sem ég sat í Aðalbyggingu Háskólans að drepa tímann í pásu í Hljóðkerfisfræðitíma.
Fannst þetta svolítið skemmtileg tilviljun. ;)
Védís (IP-tala skráð) 9.9.2010 kl. 12:24
Takk Benni. Védís, hver kennir og hvers konar hljóðkerfisfræði eruð þið að læra?
Kristín M. Jóhannsdóttir, 9.9.2010 kl. 15:54
Seisei, gamli skólameistarinn og Stína þekkjast! Svo erum við, hann og ég, reyndar nokk skyldir!
MGG (IP-tala skráð) 14.9.2010 kl. 23:05
Við þekkjumst ekki bara - Benni og mamma eru systkinabörn. Þannig að hann er náfrændi minn.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 15.9.2010 kl. 05:43
Það var og, það heitir þá að þú og hann eruð skyld í "Annan og þriðja!"
Magnús Geir Guðmundsson, 20.9.2010 kl. 10:05
Það er flottara á ensku: First cousins once removed.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.9.2010 kl. 15:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.