Klettaklifur

Ég fór að klifra í gær í fyrsta skiptið í tvo mánuði. Það sást alveg, mér fannst jafnvel auðveldustu leiðirnar ekkert auðveldar. Reyndar klifraði ég 5.10c hreint (án þess að detta og án þess að taka pásu) sem er þokkalega gott því það erfiðasta sem ég hef klifrað hreint er 5.11a, sem er aðeins tveimur stigum fyrir ofan 5.10c (aðeins 5.10d á milli). En krafturinn var lítill og ég held ég hafi ekki klifrað nema um sex eða sjö leiðir sem er auðvitað fremur lélegt. Marion hafði heldur ekki klifrað neitt svo við vorum alveg í stíl. 

Klettaklifur er ofsalega skemmtileg íþrótt. Ég byrjaði á þessu fyrir um tveimur árum og til að byrja með klifraði ég mjög mikið - að minnsta kosti þrisvar í viku og stundum fjórum sinnum í viku. Enda rauk ég áfram og á fjórum mánuðum var ég farin að klifra meira og minna það sem ég get klifrað núna. En svo fór ég til Íslands og Noregs í sex vikur, og svo til Kispiox, og svo tók við erfiður vetur með mikilli vinnu, og síðan sex vikna dvöl í Ottawa, aftur til Kispiox...Þetta þýddi allt að það komu margar vikur þar sem ég klifraði ekkert og svo langur tími þar sem ég klifraði einu sinni til tvisvar í vikur. Í haust klifruðum við þannig að við klifruðum leiðir einu sinni í viku og stunduðum svo grjótglímu einu sinni. En það er bara ekki nóg til að bæta sig almennilega þannig að ég hef mikið til staðið í stað síðan fyrsta vorið í klifrinu. Reyndar er tæknin orðin miklu betri og ég geri þetta yfirleitt fyrirhafnalausara (nema þegar ég er nýkomin úr langri pásu) en ég hef ekki beinlínis náð að komast upp um stig. Ja, ekki alveg satt því ég hef síðan þá klifrað 5.10d og 5.11a hreint en áður náði ég aðeins að gera það með stoppum á leiðinni.

Ég held samt að mitt stig núna sé 5.10c. Ég næ oftast að klára þá leið en á hins vegar oft erfitt með stigið fyrir ofan.

Ef ég hefði verið orðin enn öruggari á c-inu hefði ég getað unnið við uppsetningu á sviðinu hjá Rolling Stones. Þeir auglýstu eftir fólki sem gæti "comfortably climb 5.10c". Annars hefði ég kannski sótt um það ef ekki hefði verið sú staðreynd að hæðirnar sem þetta klifur færi fram í var kannski efsta hæð ellefu hæða blokkar. Mín er lofthrædd. Hefur ekki farið hærra en sirka 13 metra.

En nú þarf ég að byrja aftur að krafti á klifrinu, og fara að hlaupa, og vonandi spila meiri fótbolta (sem hefur verið bannað í tvo mánuði vegna kanadískra veðurguða - alltaf rennblautir vellirnir). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband