Er ég núna hálfmaraþonhlaupari?

Á sunnudaginn hljóp ég hálft maraþon í fyrsta skiptið. Hafði áður hlaupið mest 18k en þá joggaði ég það svona bara í rólegheitunum ein og með sjálfri mér. Á sunnudaginn fór ég í keppni. Ekki það að ég hafi verið að keppa við neinn nema sjálfa mig, en það er ágætis hvatning að skrá sig í hlaup. Þannig hafði ég að einhverju að stefna.

Ég var ákveðin í því að vera undir tveimur og hálfum tíma, en vildi helst vera undir tveimur og korteri. En ég er ekki hröð þegar ég hleyp langar vegalengdir. Eins og ég er nú mikill spretthlaupari ef ég þarf ekki að hlaupa langt. Þegar ég var í frjálsum í gamla daga hljóp ég aldrei lengra en 400m - það var reyndar mín besta grein. Man alltaf eftir því þegar ég hljóp 400 í fyrsta sinn. Var að keppa á UMSE móti fyrir hönd Reynis á Árskógsströnd og þá vantaði einhvern til að hlaupa 400 metrana. Ég hafði aldrei gert það áður, bara hlaupið 100 metra, og vissi ekkert hvað ég var að gera. En ég lofaði að hlaupa þetta svo félagið hefði einhvern í hlaupinu. Áður en ég fór í startholurnar spurði ég einhvern mér reyndari hvernig maður hlypi eiginlega 400. "Hlauptu þetta bara eins og þú værir að hlaupa 100 metra" var svarið og ég gerði svo. Skaust úr startholunum og hljóp svo eins og vitleysingur. Eftir tvöhundruð metra var ég orðin þreytt en heyrði másið í næstu stelpu fyrir aftan mig sem ýtti á keppnisandann og einhvern veginn hélt ég þetta út alla leið í markið. Fyrst. Gallinn var að það voru tveir riðlar og sú sem vann seinni riðilinn var hraðari en ég. Ég lenti í öðru sæti. Hef oft velt því fyrir mér hvernig þetta hefði farið ef við tvær hefðum verið í sama riðlinum.

En ég var að tala um hálfa maraþonið. Ég náði takmarkinu. Hljóp þetta á tveim tímum og ellefu mínútum. Ég leit á klukkuna þegar ég var búin að hlaupa nítján kílómetra og þá voru akkúrat liðnir tveir tímar. Ég vissi þá að ég myndi ná að vera undir tveim og korteri því það var ekki séns að það myndi taka mig fimmtán mínútur að hlaupa tvo kílómetra. Ekki fyrst ég átti enn svolitla orku eftir í mér. Ég miða kílómetrann vanalega við sex mínútur því ég hleyp 10k á undir klukkutíma. Þannig að sex mínútur er rausnarlegt. Á sunnudaginn hljóp ég síðustu tvo kílómetrana á ellefu mínútum.

Best var að það hafði rignt daginn áður og alla nóttina og fram á morgun en hætti áður en hlaupið hófst. Þegar ég var komin í markið fór að mígrigna á ný. Það rigndi fram eftir degi en hætti áður en ég spilaði fótbolta.

Já, ég spilaði fótbolta um kvöldið - sama dag og ég hljóp hálft maraþon. Ég veit, ég veit, brjálæði, þið þurfið ekki að segja mér það. Annars held ég að það hafi bara verið gott að hlaupa svona á undan leiknum því ég skoraði tvö mörk og setti upp það þriðja í 3-2 sigri okkar. Stelpurnar sögðu að ég ætti að hlaupa 21 kílómetra fyrir hvern leik. Við sitjum nú á toppi deildarinn með þrjá sigra eftir þrjá leiki—höfum skorað ellefu mörk og fengið á okkur sex.

Vondu fréttirnar eru þær að bíllinn minn dó á sunnudaginn. Þegar hlaupið var búið og ég tilbúin til að keyra heim - þá startaði bíllinn ekki. Ég varð að láta draga hann á verkstæði (og þurfti að borga sirka 8000 krónur fyrir það) og í morgun sagði bifvélavirkinn minn að vélin væri ónýt. Þetta er níu ára gamall bíll og ég hef farið ákaflega vel með hann. Því miður á það sama ekki við um fyrri eiganda sem hafði trassað ýmislegt. En sumir eru heppnir og aðrir ekki. Ég er í síðari hópnum. Nú hef ég ekki efni á að kaupa nýja vél svo best er að finna einhvern sem vill kaupa bílinn eins og hann er - kannski einhvern bifvélavirkja sem getur gert þetta sjálfur. Æ æ æ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frænka!

Þú ert örugglega hálfgerður maraþonhlaupari!

BH

bernharð haraldsson (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 21:33

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Hahahaha. Frábært. Hálfgerður maraþonhlaupari. Með það er ég farin út að hlaupa.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 30.9.2010 kl. 23:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband