Mikill fótboltadagur
3.10.2010 | 17:46
Í gær voru tveir fótboltaleikir hjá mér - annan spilaði ég, hinn horfði ég á.
Klukkan eitt spiluðum við stelpurnar í Presto við Cocquitlam United, lið sem við höfðum aldrei spilað við og þekktum ekki. Við vissum líka lítið um þær því tveim af þrem leikjum þeirra hefur verið fresta hingað til svo við vissum aðeins um úrslits eins leiks. Þar töpuðu þær 2-1 fyrir liði sem við unnum 3-2 í síðustu viku. Reyndar var niðurstaðan 3-2 ekki lýsandi því við hefðum átt að vinna þann leik stærra. En alla vega, þetta gaf okkur traust á að við ættum að geta unnið þetta lið, en við töluðum um að passa okkur samt á vanmati.
Við stelpurnar spiluðum þennan leik frábærlega. Enginn veikur punktur var sjáanlegur. Og við uppskárum fljótlega. Siobhan skoraði fyrstu tvö mörkin með því að stinga af varnarmenn sína. Annað markið skoraði Adrienne eftir góða hornspyrnu frá mér. Sjálf skoraði ég fjórða markið eftir aukaspyrnu frá Adrienne. Vörnin ýtti öllum alltof hátt upp. Heimskulegt af þeim því þær hefðu átt að vera búnar að sjá að bæði ég og Siobhan vorum hraðari en þeirra varnarmenn og því ekki gáfulegt að gefa svona stórt autt svæði. Adrienne setti boltann bara á milli varnarmanna og markmanns og ég hljóp hraðar en vörnin og átti því auðvelt með að komast fyrst að boltanum. Reyndar hélt markmaðurinn að hún ætti séns á að komast þangað fyrst og hljóp út en ég náði boltanum, lék á markmann og skaut í autt netið. Ég átti líka stoðsendinguna í fimmta markinu. Hljóp upp hægri kant, alveg upp að endalínu, sendi boltann fyrir markið, hitti Lucy, varnarmaður reyndi að losna við boltann en hann endaði í markinu.
Staðan var 5-0 í hálfleik og dómarinn stakk upp á að sjá hversu lengi við gætum verið með boltann án þess að skora. Í fjórðu deild þykir ekki skemmtilegt að valta alveg yfir hitt liðið. Sérstaklega vegna þess að reglurnar eru þannig að ekki má skrá meira en fimm marka sigur hvort eð er. Svo við reyndum þetta. En svei mér þá, það er erfiðara að reyna að skora ekki en að reyna að skora, þegar hitt liðið spilar ekki vel. Við skoruðum óvart tvö eftir þetta. Fyrra markið kom úr hornspyrnu frá Adrienne. Hún sendi háan bolta fyrir markið, boltinn hitt Lucy og fór af henni og inn. Lucy var með sektarsvip og sagðist alls ekki hafa reynt að skora. Síðara markið kom frá Alichiu sem sendi boltann í markið úr þröngu færi. Hún sór fyrir að hafa reynt að koma boltanum inn. Sagðist hafa haldið að færið væri of þröngt. Undir lok leiks skoruðu hinar stelpurnar eitt, enda vorum við farnar að slaka of mikið á. Þá var líka búið að færa alla úr sínum stöðum. Ég var á miðjunni, Adrienne miðjumaður var komin í vörnina, sóknarmennirnir spila aldrei sókn, o.s.frv. Lokatölur 7-1 og munu skráðar sem 6-1 til að virða 5-0 regluna
Bíllinn minn er enn á verkstæði svo ég tók hjólið. Skellti því fyrst á strætó fyrstu tuttugu og eitthvað kílómetrana en hjólaði svo þaðan á völlinn. Eftir leik hjólaði ég svo á lestarstöðina, skellti hjólinu á lestinu og fór yfir á Swangard fótboltavöllinn - heimavöll Vancouver Whitecaps, sem Teitur Þórðar þjálfar. Jana hafði hringt í mig um morguninn og sagst hafa aukamiða. Ég skipti um föt þar (vilti ekki drepa alla á svitalykt) og horfði svo á leikinn með Jönu, Óla Leifs og Dísu, konunni hans Teits. Þetta var síðasti leikurinn áður en úrslitakeppnin hefst. Whitecaps þurftu að vinna leikinn með þriggja marka mun til þess að vinna vesturdeildina og spila á móti Minnesota í fyrstu umferð úrslita. En það tókst ekki, leikurinn endaði 2-2 og þeir enduðu því í öðru sæti í vesturdeildinni og fimmta í USSF deildinni. Þeir hefja því úrslitaspilið við Portland sem endaði í fjórða sæti. Það hefði verið auðveldara að mæta Minnesota en þeir þurfa hvort eð er að vinna öll liðin ef þeir vilja vinna bikarinn að það skiptir ekki öllu hvaða leið þeir fara.
Þetta er síðasta ár Whitecaps í USSF deildinni. Á næsta ári færast þeir upp og munu spila í meistaradeildinni, MLS. Þetta hefur haft mikil áhrif á þá undanfarna leiki því leikmenn hafa komið og farið. Teitur er búinn að vera að prófa fjölda stráka og sumir hafa bara spilað örfáa leiki áður en þeir eru sendir í burtu. Þetta er öðruvísi kerfi en í Evrópu. Þeir geta hreinlega prófað hina og þessa og valið svo hverja þeir vilja nota á næsta ári. En þeir verða líka að ákveða það fljótlega. Vegna þessa hefur liðið ekki verið eins stöðugt eins og hjá flestum öðrum liðum í deildinni og það hefur haft sín áhrif að leikmenn þekkja ekki hver annan vel eða hvernig þeir spila.
En alla vega, góður fótboltadagur í gær með 7-1 sigri Presto og 2-2 jafntefli Whitecaps.
P.S. það sem skyggir á var tap Arsenal fyrir Chelsea í dag. En bjóst ekki við sigri. Það virðist vanta hálft liðið hjá Arsenal og af því að Chelsea er með frábært lið í ár þá er ljóst að lasið og meitt lið mun ekki leggja þá að velli.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.