Ritgerðin

Ég verð að biðjast afsökunar á því hversu sjaldan ég blogga þessa dagana. Þetta er eiginlega ekki bloggleti heldur tímaskortur. Ég vinn nú að því hörðum höndum að ljúka doktorsnáminu og sit því við tölvuna daginn út og daginn inn, þ.e. þegar ég er ekki í hljóðkerfistímum þar sem ég er aðstoðarkennari. Eina leiðin til þess að fá borgað á meðan ég er í náminu. Þetta þýðir að þegar ég er þreytt á skriftunum þá er bloggun ekki beinlínis besta leiðin til afslöppunar. Það er fremur að ég grípi í gítarinn eða fari út og hreyfi mig. Já, eða þá bara að ég fleygi mér í hægindastólinn og horfa svolítið á imbann.

Ég er nú búin að skrifa alla kaflana nema lokaorðin og hinir ýmsu kaflar eru nú hjá kennurunum mínum sem lesa yfir og gera athugasemdir. Lisa og Hotze, merkingarfræðingarnir og umsjónarkennarar mínir, hafa lesið kaflana yfir í mismunandi mynd en nú er sem sagt farið að nálgast lokaumferð. Ég hef unnið þetta þannig undanfarið að ég sendi Lisu kafla, hún sendir mér athugasemdir til baka, ég geri breytingar, sendi kaflann til Hotze, fæ hann til baka og geri athugasemdir og sendi svo til Gunnars. Staðan er nú þannig að kafli tvö er nýkominn til baka frá Gunnari og ég þarf því að taka athugasemdir hans til greina og get svo sett kaflann í uppkastsútgáfuna. Kafli þrjú er hjá Gunnari núna en ætti að koma til mín í vikunni. Kafli fjögur er nýkominn til mín frá Hotze, svo ég þarf að gera þær athugasemdir og senda hann svo til Gunnars. Kafla fimm sendi ég núna áðan til Hotze. Lisa er sem sagt búin að fara yfir alla kaflana og Hotze á aðeins eftir að fara yfir einn. Gunnar greyið sem er síðastur í röðinni á eftir að fara yfir þrjá. 

En þegar ég er búin að fá síðasta kaflann frá Gunnari og laga, þá er uppkastið tilbúið að ritgerðinni í heild. Þá þurfa alla vega Hotze og Lisa að lesa ritgerðina yfir í heild og koma með lokaathugasemdir áður en gengið er frá ritgerðinni og hún send í dómnefnd. Kerfið virkar þannig að einn dómnefndarmaður utan háskólans les ritgerðina yfir og segir til um hvort hún sé tilbúin í vörn eða ekki. Ef ekki þá verður maður að gera breytingar, en ef ritgerðin er tilbúin í vörn þá er vörnin haldin. Þar verður dómnefnd með sex dómurum. Nefndarmennirnir þrír, dómnefndarmaðurinn utan háskólans, og svo tveir aðrir dómnefndarmenn. Annar er úr málvísindadeildinni en sem hefur ekki unnið með mér að skriftum, og hinn þarf að vera úr annarri deild innan háskólans. Þetta fólk ákveður svo hvort ég hafi staðið mig nógu vel eða ekki.

Ef ég stenst vörn þá fæ ég ákveðinn tíma (frá einum mánuði til sex) til þess að gera lokabreytingar og síðan er ritgerð skilað.

Að  lokum kemur svo rúsínan í pylsuendanum sem er útskrift og doktorstitillinn.

Vá, ég trúi því ekki að þetta sé í raun að nálgast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Til hamingju.   Það verður gaman að lesa ritgerðina í heild sinni því hún er örugglega mjög góð eins og önnur skrif þín hafa verið.

Jóhann Elíasson, 13.10.2010 kl. 06:53

2 identicon

Oh, þetta eru svo spennandi tímar, áður en þú veist af verður þú bara búin að setja lokapunktinn og veist ekki lengur hvað þú átt að gera við allar mínúturnar sem þú átt aflögu! Gangi þér vel með lokahnykkinn, ég veit að þessi ritgerð er miklu betri en þú þorir að viðurkenna fyrir sjálfri þér :)

Rut (IP-tala skráð) 13.10.2010 kl. 19:25

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk fyrir það Jóhann. Annars er gallinn á ritgerðinni einmitt sá að það er aðeins of mikill spjallstíll á henni. Kannski ég skrifi um málvísindi eins og ég sé að blogga -  og það er ekki alveg nógu gott. Verð að hljóma meir eins og fræðimaður

Rut, þú getur ekki ímyndað þér hvað ég hlakka til þegar ég er búin. O þó, jú, þú getur líklega ímyndað þér það, hafandi sjálf gengið í gegnum það sama.

Og þarna notaði ég lýsingarhátt nútíðar í annarlegri merkingu...áhrif frá ensku? 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 14.10.2010 kl. 06:32

4 identicon

Til hamingju!

Þetta er alveg stórglæsilegt hjá þér!

Nú held ég, að Ólafur gamli ellefu landa, brosti mætti hann líta upp úr gröf sinni þegar annað barnabarnabarnið hans ver doktorsritgerð í málvísindum vestanhafs.

(það er hillulpáss hjá mér fyrir eintak)

Kveðja

Frændi

Bernharð Haraldsson (IP-tala skráð) 14.10.2010 kl. 10:41

5 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk fyrir það frændi.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 14.10.2010 kl. 16:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband