Winnipeg er ekki öll þar sem hún er séð
25.10.2010 | 07:43
Þegar ég heyrði um þetta var það fyrsta sem kom í hug: 'hvar í borginni ætli þetta hafi verið'. Það kom mér ekki á óvart þegar ég las að þetta hafi gerst í norðurhlutanum. Norðurhlutinn, sérstaklega austan Rauðárinnar hefur lengi verið versti hluti bæjarins og þar verið mest um fátækt og glæp. Íslenska hverfið í Winnipeg tilheyrir reyndar norðurhlutanum og það svæði er ekki sérlega gott, en er þó ekki þar sem svæðið er verst.
Það er reyndar ótrúlegt að trúa því að Winnipeg hefur lengi verið nefnd morðborg Kanada því þar fara fram hlutfallslega flestu morðin. Ég held það hafi reyndar breyst og sé nú Vancouver og nágrenni. Skyldi það vera tilviljun að flest morð eru þar sem ég bý???
Hluti þess að ástand mála er slæmt í Winnipeg hefur með það að gera að þar er mjög hátt hlutfall atvinnulausra indíána sem margir hverjir hafa leiðst í glæpi. Það gerist líka með borgirnar að þær laða að sér þá indíána sem eiga í vandræðum með drykkju og eiturlyf en yfirleitt er reynt að halda slíku utan verndarsvæða og á sumum stöðum er áfengisnotkun með öllu bönnuð á verndarsvæðunum. Það þýðir því að sjálfsögðu að þeir sem ekki ráða við fíknina yfirgefa svæðin og leita til borgarinnar. Winnipeg er langstærsta borgin á milli Toronto og Calgary og þangað leitar því fólk af stóru svæði. Maður þurfti ekki að ganga lengi um borgina til að verða þess var hversu ástandið var slæmt. Ég var bara búin að vera nokkra daga í Winnipeg þegar ég varð fyrst vitni sorginni sem ríkir í kringum´áfengisneyslu hinna innfæddu því ég var að hjálpa konu sem lá dauðadrukkin á bakka Rauðár og var að því komin að falla í ána þegar miskunnarsamur samverju kom að. Ég kom að stuttu síðar og sameiginlega náðum við tvö að koma konunni undir læknishendur.
Í Winnipeg eru líka mjög virk glæpagengi (rétt eins og hér í Vancouver) og ég man hversu hissa ég var fyrst þegar ég heyrði minnst á Winnipeg mafíuna. Og þar var ekki verið að vísa í neina listamafíu eins og stundum er talað um heima. Nei, þetta var alvöru mafía sem drap fólk sem ekki gerði það sem þeim var sagt. Stuttu eftir að ég flutti til Vancouver tók Tim, minn fyrrverandi, einn nemanda sinn í hús því strákurinn hafði gert eitthvað sem mafíunni líkaði ekki og því var heimili hans vaktað. Það átti að drepa hann. Ég man ekki hversu lengi strákur faldi sig heima hjá Tim, á mínu fyrrverandi heimili, en það voru einhverjir dagar. Tim hjálpaði svo stráknum að komast úr borginni og löngu síðar kom mamma hans til Tims og þakkaði honum fyrir og sagði að líklega hafi hann bjargað lífi stráksins.
Já, það virðist kannski koma á óvart að borg sem virkar eins vinsamleg og Winnipeg skuli lenda í svona skotárás eins og þessari sem varð í gær, en ég er svo sem ekkert svakalega hissa. Þar kraumar margt undir niðri. Ekki þar fyrir að það er brjálað fólk í öllum borgum og friðsami nágranni manns getur reynst vera morðingi eða nauðgari.
Það sem gerir mig kannski mest hissa er þegar hræðilegir hlutir hafa gerst og svo er talað við nágrannana sem segjast ekki trúa því að eitthvað svona hafi gerst í þeirra hverfi. Af hverju í ósköpunum er fólk svona hissa? Fyrst slæmir hlutir gerast, þá geta þeir allt eins gerst í okkar hverfi eins og í hverfi einhvers annars?
Og með það er ég farin í háttinn og vona að ekkert gerist verra í hverfinu mínu en rigningin sem nú fellur niður.
Leitað að byssumanni í Winnipeg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fróðlegur pistill.
Það kemur mér á óvart, þetta með glæpina í Winnipeg. Ég hélt að þetta væri "hreinn, friðsæll skandinavískur" bær.
Gunnar Th. Gunnarsson, 25.10.2010 kl. 11:24
Takk Kristín fyrir þessi skrif. Mjög áhugavert.
Mér er sagt að Vancouver sé góð borg að búa í, ég vona að það sé ekki að breytast.
Mig minnir að Vancouver hafi oftsinnis verið ofarlega á blaði þegar reynt var að meta hvaða borgir í heiminum voru „bestar“ (mat út frá mörgum þáttum) að búa í..
Gunnlaugur Ásgeirsson, 25.10.2010 kl. 18:29
Þetta er fróðleg samantekt hjá þér Kristín. Margt sem segir vissi ég ekki og kemur mér nokkuð á óvart.
Winnipeg er falleg borg. Vissulega sér maður ógæfumenn, þá oftast af kyni innfæddra. Þó virðist sem nokkuð sé unnið að því að halda því fólki frá hellstu ferðamannastöðunum.
Gunnar Heiðarsson, 25.10.2010 kl. 20:55
Já, Winnipeg er vissulega góð borg að búa í og þótt ég bendi hér í greininni á að glæpir séu þar algengari en menn myndu búast við, þá er ekki þar með sagt að það skapi stórvægilegt vandamál. Glæpir eru t.d. mjög fáséðir almennt í Kanada—alla vega ef borið er saman við Bandaríkin. Morð í stórborgum eru kannski undir tuttugu á ári sem er líklega minna en vikuskammtur í sumum borgum Bandaríkjanna.
Ég bjó þarna í fjögur ár og leið ákaflega vel. Það er frekar ódýrt að búa í Winnipeg og maður hefur nóg skemmtilegt að gera. Vötnin eru falleg og slétturnar með risastóran himinn geta verið ákaflega heillandi.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 26.10.2010 kl. 03:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.