Aukin notkun veikra lýsingarorða

Undanfarna mánuði hef ég tekið eftir athyglisverðri breytingu á notkun lýsingarorða á netinu, og þá sérstaklega á meðal kvenna. Þær nota veik lýsingarorð ein og sér án nafnorðs. Veik lýsingarorð eiga að standa með ákveðnum nafnorðum og ættu aldrei að standa ein og sér. Ef notuð eru lýsingarorð án nafnorðs þá höfum við þau í sterkri beygingu:

Hún er lítil - sterk beyging
Hér er lítil kona - sterk beyging
Hér er litla konan - veik beyging

En á Facebook, t.d., sé ég aftur og aftur athugasemdir við myndir sem hljóða svona:

Sætu
Sæta
Flotta
Flottustu
Sætustu

Þetta er að sjálfsögðu ekki eina notkunin. Sem betur fer er það ennþá algengt líka að nota sterku beyginguna og skrifa 'sætar' eða 'sætastar' en þessi notkun veikra lýsingarorða er samt alveg ótrúlega algeng.

Hafa aðrir tekið eftir þessu? Einhverjar hugmyndir um hvaðan þetta kemur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

já, ég hef tekið eftir þessu. Ég ímynda mér að ástæðan sé sú að það sé þarna ósagt nafnorð eða jafnvel fornafn að baki, sbr. sætu (hjón), flotta (kona), sæta (þú). Mér finnst þetta samt einstaklega undarlegt í efsta stigi. Svo má náttúrlega velta því fyrir sér hvort þetta sé upphafið að endinum fyrir sterka beygingu lýsingarorða ... ég meina sterku beygingu lýsingarorða.

Halldóra (IP-tala skráð) 3.11.2010 kl. 22:00

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Þú hefur sennilega rétt fyrir þér. En af hverju ætli fólk sé farið að sleppa nafnorðinu? Er þetta skrifleti? Fólk skrifar almennt meira nú en það gerði (margir eru á netinu sem aldrei tóku upp penna) og þetta er þá nokkurs konar stytting. SMS dæmið í annarri mynd. En við skulum vona að sterka beygingin sé ekki almennt á undanhaldi.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 4.11.2010 kl. 00:39

3 Smámynd: Sigurjón

Sæl frænka í Kanödu.

Ekki kæmi það mér á óvart þó hér sé um leti að ræða hjá stafaþrykkjurum.

Kveðja frá Fróni.

Sigurjón, 4.11.2010 kl. 13:11

4 identicon

Tekl undir með Halldóru. Það er þarna ósagt nafnorð.

Lilja (IP-tala skráð) 4.11.2010 kl. 13:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband