Íslenska mannkindin
14.11.2010 | 19:06
Þegar ég var sirka fjórtán ára voru Milletúlpurnar geysivinsælar. Þessar bláu, glansandi, fóðruðu úlpur sem voru rauðar að innan. Það var hálfgerður brandari ef einhver vissi ekki hver einhver var að maður sagði: Æi, hann er alltaf í gallabuxum og blárri Milletúlpu, og svo hló maður hrossahlátri, enda voru allir klæddir þannig. Og innan undir úlpunni var maður í blárri hettupeysu frá Adidas (ef maður var heppinn) eða Hummel (ef maður var ekki eins heppinn). Adidas peysurnar voru með hvítri rönd á annarri ermi en Hummel á báðum.
Íslendingar eru alltaf eins. Eitthvað kemur í tísku og allir klæðast því sama, eða allir kaupa sömu græjurnar eða eru með sömu klippinguna. Þegar ég kom heim fyrir sirka fjórum árum voru allar konur á Íslandi með sömu hárgreiðsluna: örstuttan topp sem klipptur var þvert yfir ennið, næstum eins og notuð hafi verið skál. Þegar ég nefndi þetta við fólk þá kannaðist enginn við þetta og flestir harðneituðu því að það væri einhver tíska í gangi. En samt voru næstum allar konur með þessa klippingu. Mér fannst eins og ég væri stödd í bókinni 'Yfirvaraskeggið' eftir Cormier, þar sem enginn vildi kannast við að sögumaður hafi nokkurn tímann verið með yfirvaraskegg. Kannski þarf maður að búa erlendis til að sjá þetta eins greinilega, ég veit ekki. Þetta með Milletúlpuna var mér alltaf mjög greinilegt þótt ég væri sjálf í blárri Milletúlpu.
Sumarið 2007 fór Gunnar Hansson sem hér býr í sumarfrí til Íslands. Þegar hann kom til baka spurði ég að því hvað tískubóla hefði nú heltekið Ísland enda erum við vön því að spyrja hvort annað þeirrar spurningar þegar annað hefur verið á Íslandi. Hann sagði að það væru verðbréf og fjármálamarkaðir. Hvar sem hann hefði komið í heimsókn þar var verið að tala um peningamál. Hið ótrúlegasta fólk var farið að kaupa verðbréf og var að fjárfesta í hinu og þessu. Hann sagði að það væri fyrst og fremst peningar sem þjóðin væri að hugsa um. Ári síðar hrundi allt.
Og síðast eða þar síðast þegar ég kom heim þá voru allir komnir með flatskjá sjónvarp. Allir. Alla vega allir sem ég kom til (mamma sagðist hafa komið í þrjú hús um daginn á sama deginum þar sem allir voru með gömlu sjónvörpin sín þannig að þetta hefur greinilega ekki náð á alla staði). Þegar ég nefndi þetta við einhvern var svarið: 'Nú, þetta eru einu sjónvörpin sem hægt er að kaupa núna'. En bíddu, eyðilögðust sjónvörp alls þessa fólks á þessu eina og hálfa ári eða svo sem ég var í burtu? Var einhver galli í sjónvörpunum. Er þetta ekki stuttur endingartími? Ég myndi sjálf kaupa flatskjá ef ég væri að kaupa sjónvarp í dag, enda rétt að það er ekki hægt að kaupa neitt annað. En sjónvarpið sem ég keypti 2003 þegar ég flutti til Vancouver er enn í fínu lagi og engin ástæða til að kaupa nýtt bara til að fá flatskjá.
Ég las grein um þetta fyrirbæri í dag. Þar var höfundur að velta því fyrir sér af hverju við förum í biðröð bara til að geta keypt kaffi á Tim Hortons (kanadísk kaffi og kleinuhringjakeðja sem er mjög vinsæl hér), eða af hverju við borgum fimm dollara fyrir latté frá Starbucks. Sagt var að það væri kindin í okkur. Við hópuðumst saman eins og kindahjörð. Ef við sæjum aðra gera eitthvað, sérstaklega ef þeir væru nokkrir saman, þá gerðum við það sama. Og ég sver að Kanadamenn eru ekki nálægt því eins slæmir hvað þetta snertir eins og Íslendingar. Kannski er það vegna einangrunar íslensku sauðkindarinnar. Hún hefur ekki breyst síðan um landnám og kannski hefur það áhrif á íslensku mannkindina. Nema það sé íslenski smalahundurinn sem hefur staðið sig svona vel í að smala okkur öllum saman í einn hóp svo við vitum vart lengur hvar við endum og næsta mannkind byrjar.
Athugasemdir
Snilldargrein Stína...þú hittir naglann á höfuðið. p.s ég var alltaf í skærblárri Millet úlpu, sú dökkbláa var uppseld :)
Sigþór Gunnarsson (IP-tala skráð) 14.11.2010 kl. 20:02
Takk Sissó. Svei mér þá ef ég man ekki eftir þér í úlpunni þinni.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 14.11.2010 kl. 20:05
Tek undir med Sigthóri...gódur texti og gaman ad lesa.
Úlpa (IP-tala skráð) 14.11.2010 kl. 20:20
Sæl Kristín, ég hef mjög gaman að lesa bloggið þitt og mikið er ég sammála þér hér! Ég bý í Bandaríkjunum og tek eftir þessu líka þegar ég fer heim, allir eins einhvern veginn. Fyrir nokkrum árum voru ALLAR konur í stuttum gallapilsum og svörtum leggings, og gjarnan lopapeysu...
Bestu kveðjur til Kanada.
Guðrún (IP-tala skráð) 14.11.2010 kl. 23:57
Alveg snargód grein hjá thér!
Guðmundur Pálsson, 15.11.2010 kl. 10:53
Vér kindurnar jörmum af hrifningu. Vel mælt, Stína.
Gísli Ásgeirsson (IP-tala skráð) 15.11.2010 kl. 19:10
Takk öll fyrir innlitið og falleg orð.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 15.11.2010 kl. 19:30
so true so true ;)
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 24.11.2010 kl. 14:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.