Um hlutverk slúðurfréttamiðla í fjármálabrjálæðinu
23.11.2010 | 21:36
Oft þegar Íslendingar ferðast til útlanda grípa þeir með sér slúðurblöð eins og Séð og heyrt eða Hér og nú til að lesa í fluginu. Stundum lenda þessi blöð svo hjá Íslendingum erlendis sem heimsóttir eru. Ég á nokkur þessa blaða frá síðustu þrem árum vegna þess að ég nennti aldrei að lesa allt sem í þeim var en tími ekki að henda fyrr en ég væri búin að lesa allt. Hef verið að glugga í þau upp á síðkastið, svona þegar ég þarf pásu frá lærdómnum.
Það er alveg stórmerkilegt að lesa þessi blöð núna svona þegar maður veit hvað gerðist. Ég veit ekki hvort blöðin endurspegla þjóðfélagið en þau sýna að minnsta kosti hvernig lífernið var á ákveðnum hóp Íslendinga, og hvernig litið var á fólk innan þess hóps sem einhverjar stórstjörnur. Þegar maður gluggar í erlend blöð í sama stíl, svo sem Enquirer, People og Star, eru þau blöð uppfull af slúðri um leikara og söngvara. Stundum líka einstaka íþróttamenn, ef þeir eru stór nöfn, og örfáa ríkisbubba eins og Donald Trump og eiganda Virgin, sem ég man ekki þessa stundina hvað heitir. Íslensku blöðin eru hins vegar uppfull af sögum af bankamönnum og fjárfestum, forstjórum og öðrum ríkisbubbum. Jú, og íþróttamönnum, hvort sem þeir eru sérlega góðir eða ekki. Í hverju hefti eru myndir frá árshátíðum fyrirtækja, og eitt heftið hafði meira að segja heilsíðugrein um væntanlega árshátíð og hverjir væru líklegir til að mæta þar. Þessar greinar eru svo skreyttar talblöðrum sem segja 'flott', 'sæt saman' og 'heitt par'. Ein greinin var um hverfi í Garðabæ þar sem safnast hefur saman fjöldi ungs, ríks fólks sem ýmist var í pólitík eða vann í banka. Það er kannski ekki skrítið að þetta ævintýri endaði eins og það gerði. Það var búið að ala upp í fólki svoddan þvílíku aðdáunina á þeim sem voru á kafi í fjármálum og farið var með þetta fólk eins og guði.
Eitt af því fyndnasta sem ég sá var mynd af Evu Bergþóru, fyrrum fréttakonu, og manni hennar, þar sem þau sátu í réttarsal þar sem verið var að rétta yfir manni hennar vegna fjármálaóreiðu. Þ.e. hann og pabbi hans voru ákærðir fyrir brot á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Og hver var fyrirsögnin? 'Flott á fremsta bekk'. Maðurinn var sakaður um fjármálaóreiðu og blaðamanni fannst merkilegast hversu flott þau voru. Ef þetta er ekki aðdáun á fjármálaglæpamönnum þá veit ég ekki hvað.
Ég vildi helst skrifa meir um þetta en verð að drífa mig í skólann.
Athugasemdir
Já, það var sannarlega glatt á hjalla. Eg fór í heimsókn til Islands 2003. Fór í bankann, afgreiðsludaman spurði mig hvort mér fyndist ekki allt orðið flott og fínt í Reykjavík, Eg kváði við og spurði ´eins og hálfviti´ jú, en hvaðan koma peningarnir? Hún svaraði frá Álverksmiðjunum auðvitað!!
Björn Emilsson, 23.11.2010 kl. 23:19
Hahaha, já, var það þaðan sem peningarnir komu.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 24.11.2010 kl. 00:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.