Að keyra fullur
12.12.2010 | 22:01
Eitt af því sem sjokkeraði mig þegar ég flutti til Kanada var hversu mikið áfengi fólk drekkur áður en það sest upp í bílinn sinn og keyrir heim. Áfengismörkin voru reyndar hærri en á Íslandi (og eru kannski enn), því þau lágu við 0,08 þangað til nú í ár þegar þeim var breytt í 0,05. Síðan þeim var breytt hefur lögreglan verið á nornaveiðum. Ef einhverjir mælast yfir mörkunum þá er bíllinn þeirra tekinn og honum haldið í þrjá daga. Gallinn er að mælingar hafa sín skekkjumörk en lögreglan hefur ekki tekið það í reikninginn og mér skilst að þetta þýði að þeir taki stundum bílinn af fólki sem er rétt yfir mörkunum en innan skekkjumarka, og gæti því í raun verið rétt undir markinu. En það sem er kannski verst er að enginn veit fyrir víst hversu mikið hann má drekka án þess að falla á mælingunni. Sumir geta kannski drukkið einn bjór og lent yfir, á meðan aðrir drekka þrjá eða fjóra án þess að mælast yfir mörkunum. Það þýðir að sjálfsögðu að það eina örugga er að drekka ekki neitt en þá væri líka allt eins hægt að setja mörkin á núllið.
Fjórir blaðamenn á dagblaðinu Vancouver Province ákváðu að gera smá tilraun. Þeir fengu lánaðan hágæða mæli og tóku svo til við drykkju. Konan í hópnum sem var í kringum 1.50 á hæð og um fimmtíu kíló slagaði upp í mörkin eftir einn bjór. Hún mældist 0,045. Eftir tvo bjóra var hún ekki bara komin yfir mörkin heldur upp í gömlu mörkin, 0,08. Karlmennirnir þrír gátu allir drukkið eina þrjá drykki áður en þeir féllu a nýju mörkunum en það sem var hrikalegast var hversu mikið þeir gátu drukkið áður en þeir náðu gömlu mörkunum. Sá elsti í hópnum drakk yfir tíu drykki og náði mest upp í 0,077. Annar fór ekki yfir 0,08 fyrr en hann var búinn með tíu drykki. Þá sagðist hann hafa verið farinn að slaga um gólf, gat varla talað og átti erfitt með að skrifa skýrslu á tölvuna. Og samt var hann undir gömlu drykkjumörkunum. Ótrúlegt.
Niðurstaða rannsóknarinnar var að það hafi verið rétt ákvörðun stjórnvalda að lækka drykkjumörkin niður í 0,05. Hvað eru þau annars á Íslandi, 0,04?
Athugasemdir
Ég er ekki alveg viss en ég held að mörkin hér séu 0.02 en ég þori nú ekki alveg að standa á því. Það er ekki alveg að marka en persónulega finnst mér að mörkin ættu að vera við 0,00 það þarf bara að koma því inn hjá fólki "AÐ ÁFENGI OG AKSTUR FARA ALDREI SAMAN".
Jóhann Elíasson, 13.12.2010 kl. 01:22
veit að þetta mun hljóma furðulega, en að keyra fullur er hættuminna en að labba fullur.
auðvitað ætti maður ekki að drekka ef maður ætlar að keyra heim, nú eða að taka leigubíl en fannst þessi litla tölfræði áhugaverð, en það er 8 sinnum meiri líkur á að valda dauða einhvers með því að labba heim, ef það er tekið inní dæmið að ef þú labbar fullur eru miklu minni líkur á að drepa aðra en þig sjálfan, þá fellur þetta niður í 5 sinnum meiri líkur.
þar að auki eru fullir ökumenn einfaldlega svo sjaldan teknir fyrir akstur undir áhrifum að flestir taka sénsinn.
sem er miður :/
Egill, 13.12.2010 kl. 04:27
Pabbi vann einu sinni með manni sem hjólaði alltaf í vinnuna. Daginn sem jólapartýið var haldið í vinnunni keyrði maðurinn í vinnuna. Þegar vinnufélagarnir spurðu af hverju hann væri á bílnum þá sagði gæinn: "Ég ætla mér að verða fullur og það er auðvitað brjálæði að hjóla fullur heim."
Kristín M. Jóhannsdóttir, 13.12.2010 kl. 08:14
Mig minnir endilega að mörkin hér á landi séu rétt fyrir ofan núllið ... síðan fyrir sirka 3 til 4 árum ... til að hafa það á hreinu að öll áfengisneysla er of mikið ætli menn sér að aka, án þess þó að menn verði sektaðir fyrir að drekka malt.
Hörður Sigurðsson Diego, 13.12.2010 kl. 10:30
@ Egill; Þetta hljómar furðulega, það er satt. Ertu með hlekk á ransóknir sem styðja þessar stahæfingar?
Hans Miniar Jónsson., 13.12.2010 kl. 14:32
Mörkin á Íslandi eru 0,05 (0,50 prómíll) við erum nú ekki alveg komin í Norska stílinn sko, en þar eru mörkin 0,02 eða 0,20 prómíll. Það er talað um hér á landi að einn drykkur sé markið, þá er alveg sama við hvað er átt, 1 bjór, 1 viksiglas, 1 rauðvínsglas ... en þetta finnst mér samt ansnaleg viðmið. Og eins og þessi litla rannsókn sýndi fram á þá erum við öll með mjög svo misjafnt "þol" gegn áfengi og einnig útskiljum við mishratt (elimination).
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 21.12.2010 kl. 13:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.