Réttað yfir morðingja
14.12.2010 | 08:21
Þessa dagana hér í Vancouver er verið að rétta yfir manni sem er ákærður fyrir að hafa drepið ófríska eiginkonu sína. Þessi náungi er með heimskari morðingjum og virðist lítið hafa gert til að fela slóð sína og samt heldur verjandi hans því fram að saksóknari hafi á litlu að byggja.
Ég man þegar málið kom fyrst í fréttum fyrir fjórum árum. Fyrst var tilkynnt um hvarf konunnar en síðan fannst brunnið lík hennar í fjörunni, fimm dögum eftir hvarfið. Ég man að það fyrsta sem mér kom í hug þegar ég heyrði þetta var að eiginmaðurinn væri sekur. Það mætti kannski halda að ég hafi hugsað það vegna kynþáttafordóma - hjónin voru bæði síkar - en málið er að það er algengast að lík séu brennd (og þá meina ég ekki á líkstofu) þegar um heiðursmorð er að ræða, og slíkt gerist fyrst og fremst innan ákveðinni trúarhópa.
Hér eru nokkur málsatriði.
- Konan hvarf eftir að hafa farið í jógatíma. Eiginmaðurinn tilkynnti ekki um hvarf hennar fyrr en um 36 tímum eftir að hún átti að hafa verið komin heim.
- Hann beið svona lengi þrátt fyrir að vinkonur eiginkonunnar og sumir vinir hans hafi hvatt hann til að hringja á lögregluna miklu fyrr.
- Eftir að hún hafði verið horfin í rúman sólarhring fór eiginmaðurinn á bar og sat þar að drykkju með vinum sínum.
- Bíll konunnar fannst í hverfi þar sem eiginmaðurinn hélt að jógastúdeó eiginkonunnar væri, en ekki þar sem það var í raun.
- Konan notaði símann sinn á meðan hún var í jógaferðinni, en daginn eftir var SIM kort eiginmannsins í síma konunnar, og var þar í þrjá mánuði eða þar til lögreglan tók símann.
- Daginn sem konan hvarf fór maðurinn hennar í búð og keypti dagblað og kveikjara - hann náðist á vídeó. Munið að lík konunnar fannst brunnið.
Það er kannski rétt hjá verjanda að engar sannanir liggja fyrir. En ég held að enginn sem fylgist með þessu máli geti efast um sök eiginmannsins. Það er eins og hann hafi ekki einu sinni reyn að hylja slóð sína - nema með því að brenna líkið. Sem er að sjálfsögðu gagnslaus - ef brunnið lík finnst nokkrum dögum eftir að kona er tilkynnt týnd, þá er að sjálfsögðu eitt af því fyrsta sem lögreglan gerir að athuga hvort líkið er af týndu konunni.
Morð eru almennt ekki algeng í Vancouver, og þegar þau gerast er yfirleitt um að ræða glæpagengi að drepa liðsmenn annarra glæpagengja. En af og til gerast eitthvað eins og þetta hræðilega morð.
Athugasemdir
Hefur eitthvað það komið fram í málinu sem gæti verið ástæða morðsins? Hversu langt var konan komin á leið?
Hörður Sigurðsson Diego, 14.12.2010 kl. 21:15
Lítið hefur verið talað um ástæðuna. Mig minnir þó að ég hafi lesið eitthvað um hjónaerfiðleika og jafnvel að eiginmaðurinn hafi ásakað konuna um framhjáhald. En um það er ég ekki alveg viss. Ég held hún hafi aðeins verið komin eina þrjá eða fjóra mánuði á leið.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 14.12.2010 kl. 23:08
Þetta er ljót saga og nánast furðulegt, að jafnheimskur maður og þarna á hlut að máli, sleppi undan armi laganna ? Vonandi tekst yfirvöldum að negla þennan grimma gaur !
Kveðja, KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 19.12.2010 kl. 11:32
Sæl Stína. Eitt vekur furðu mína. Síkar mega alls ekki drekka áfengi, skv. þeirra trú. Því finnst mér furðulegt að maðurinn skuli hafa verið tekinn við drykkju með félögum sínum.
Að öðru leyti er þetta sorglegt að öllu leyti.
Beztu kveðjur til Kanödu!
Sigurjón, 27.12.2010 kl. 02:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.