Kaffiraunir

Ég var töluvert utanvið mig í gærmorgun. Ég var rétt byrjuð á því að taka til morgunmat þegar ég mundi að það var rusla- og endurvinnsludagur. Vanalega koma bílarnir snemma á morgnana svo ég skellti kaffikönnunni í samband, setti hálfa beyglu í brauðristina, henti mér í föt og hljóp út með vikubirgðir af rusli og endurvinnslu (hér þorir maður ekki að setja ruslið út fyrr en rétt fyrir rusladag því annars koma þvottabirnir í ruslatunnurnar og dreifa ruslinu út um allt). þegar ég kom til baka var kaffið til, beyglan ristuð og ég þurfti bara að skella ávaxtasalatinu í skál svo ég gæti borðað góðan morgunverð. Nema hvað...kaffið var andskoti þunnt. Jafnvel verra en þegar mamma hellir upp á sitt uppáhaldskaffi. Afi kallaði kaffið hennar mömmu ærmigu í sólskini, hvað skyldi þá þetta kaffi vera? Ég reyndi að slafra þessu í mig (enda alþekkt boðorð á mínu heimili: "Slafraðu þessu í þig og pillaðu þig svo frá borðinu!") en það var fremur erfitt. Svo að lokum gafst ég upp og ákvað að hellta upp á nýtt kaffi. Svo ég fór og hellti þessu sulli niður. Skildi ekki ennþá hvernig ég gat lagað svona þunnt kaffi þar sem ég set vanalega tvær skeiðar á einn bolla. En hvað, þegar ég helli kaffinu virðist það ljósara en mig grunaði. Eiginlega alveg glært. Þetta hafði ég ekki séð áður því bollinn er svartur að innan. Jæja, hvað um það, ég fer að kaffikönnunni (lítil einbolla vél) og geri mig tilbúna til að henda korginum svo ég geti fyllt á aftur...og þá skil ég hvernig í öllu liggur. Það er enginn korgur. Ég hafði ekki verið búin að setja kaffið í þegar ég hljóp út með ruslið. Eina kaffibragðið af kaffinu kom því af því að fara í gegnum margnota filterinn.

Ég hló að sjálfri mér, setti nóg af kaffi í filterinn og kveikti svo á könnunni - án þess að hafa hellt vatninu í. En nú sá ég villu mína í tíma, lagaði mistökin og uppskar rjúkandi heitt og gott kaffi.

Og seinna um daginn lærði ég upp á eigin spýtur hvernig ég ætti að hekla í húfukanta. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband