Góð byrjun á nýju ári

Nú er kominn þriðji janúar og ég hef ekki enn notað þennan miðil til að óska öllum gleðilegs nýs árs svo ég nota tækifærið nú og óska ykkur öllum velfarnaðar á árinu sem nú er gengið í garð.

Árið 2010 var yfir höfuð gott ár. Það byrjaði með vinnu við Ólympíuleikana og þegar Ólympíuleikum fatlaðra lauk í mars tóku við skriftir. Ég eyddi næstu níu mánuðum fyrir framan tölvuna, ýmist heima hjá mér eða á kaffihúsum og lauk við doktorsritgerðina. Skilaði henni loks í byrjun desember og á svo að verja núna í febrúar.

Utan við Ólympíuleikana var árið svo sem ekkert sérlega skemmtilegt því ég átti ekki tök á því að taka mér neitt frí, ferðast eða gera mikið til að lífga upp á lífið, en það var nauðsynlegt að taka á ritgerðinni með öllu því sem ég átti svo ég gæti loksins lokið námi. En auðvitað fékk ég tækifæri á einstaka skemmtilegum dögum.

Ég fór t.d. niður til Seattle á tónleika með Ringo Starr, sem var ákaflega gaman. Ég hljóp mitt fyrsta hálfa maraþon og náði að hlaupa undir þeim tíma sem ég setti mér. Þá gekk ég nær vikulega á Grouse fjall sem hjálpaði við að koma mér í gott form og losna við aukakílóin sem bættust á í Ólympíutörninni. Ég hjólaði líka meira en ég hef gert og spilaði fótbolta tvisvar til þrisvar í viku.

Talandi um fótbolta. Liðið sem ég spila með, Presto, hefur nú í haust gert betur en nokkru sinni í sjö ára sögu félagsins. Við höfum unnið níu leiki og tapað tveim. Það eru tveir eða þrír leikir eftir áður en úrslitakeppnin hefst og ef við stöndum okkur vel í þeim ættum við alla vega að ná öðru sæti deildarinnar. Mig minnir að við höfum einu sinni lent í þriðja sæti en það var fyrir tveim árum.

Það gengur líka vel í hokkíinu. Liðið sem ég fylgist með þar, Vancouver Canucks situr nú í fyrsta sæti deildarinnar, en það er í fyrsta sinn síðan ég byrjaði að fylgjast með hokkíi fyrir nokkrum árum. Enda hefur gengið ótrúlega vel og liðið hefur unnið 10 af síðustu 12 leikjum. 

Ég var líka ánægð með áramótin. Svo mikið betri en í fyrra. Enda fékk ég að halda upp á þau á Akureyri en ég vil hvergi vera um áramót en hér. Jólin eru alltaf ágæt, alveg sama hvar ég er, en áramót eru aldrei skemmtileg nema heima í heiðardalnum. Mér fannst annars alveg ótrúlegt hversu mikið var skotið upp af flugeldum og var ekki að sjá á að enn væri kreppa í landinu. Og áramótaskaupið fannst mér bara býsna gott þótt ég þyrfti að fá útskýringar á einstaka atriðum enda vita svona útlendingar eins og ég ekki um allt sem gerist á landinu þótt ég lesi netmoggann daglega.

En árið 2011 lofar sem sagt góðu. Byrjunin er alla vega frábær. Flugeldar og brenna á Akureyri, afmæliskaffi pabba á nýársdag, skotferð til Húsavíkur að heimsækja Húsavíkurarm fjölskyldunnar þann annan, Canucks á toppi NHL deildarinnar...ég get ekki beðið um betra upphaf nýs árs. Við skulum vona að þetta sé vísir að því sem koma skal.

Megi 2011 verða magnað ár!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, gleðilegt nýtt ár

Arnar (IP-tala skráð) 3.1.2011 kl. 22:20

2 identicon

Gleðilegt ár og til hamingju með árangurinn.

Hamingjuóskir (IP-tala skráð) 4.1.2011 kl. 03:29

3 identicon

Gleðilegt ár til þín líka mín kæra, vonandi heldur allt áfram á góðu brautinni - ég fylgist spennt með atburðum lífs þíns af hliðarlínunni!

Rut (IP-tala skráð) 4.1.2011 kl. 13:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband