Almennilegt vetrarveður
6.1.2011 | 22:15
Nú er almennilegt illviðri á Akureyri. Snjóar og skefur svo vart sér út úr augum. Við pabbi létum það reyndar ekki stoppa okkur frá göngutúr. Klæddum okkur bara vel, settum upp skíðagleraugu og óðum svo snjóinn. Mér þykir svona auðvitað bara skemmtilegt enda sjaldan að ég komist í almennilegan snjóstorm. Þetta snjóar aldrei neitt neitt í Vancouver. Reyndar þarf bara nokkur korn svo allt lokist þar enda engir með almennileg snjódekk og borgin ekki viðbúin ófærð. En hér á Akureyri kippir maður sér lítið upp við svona veður.
Reyndar var ég að verða svolítið skapvond í dag á því að geta ekki hreyft mig. Ég er vön að vera á sífelldum þönum, fer út að hlaupa, spila fótbolta, geng mikið. Ég reyndi að fara út að hlaupa fyrir nokkrum dögum en það var svo mikil hálka að ég varð sífellt að vera að passa mig. Hljóp smávegis, tiplaði svo á ís, hljóp svo smá, tiplaði á ís... Fór í mat til bróður míns í kvöld og ætlaði að labba annað hvort þangað eða heim, en veðrið var svo vaðvitlaust að ég lagði ekki í það. Þess vegna fór ég í göngutúrinn í kvöld. Svo ég fengi einhverja hreyfingu.
Ég hef stundum hugsað um það hvað myndi koma fyrir mig ef ég fótbryti mig. Ég held svei mér þá að ég yrði klikkuð. Ég yrði feit og skapvond. Hef alltaf verið svona. Amma sagðist einu sinni myndu gefa mér pening ef ég gæti setið kyrr í fimm mínútur. Þá var ég sirka tíu ára. Mér tókst að sitja kyrr í tilætlaðan tíma en það var rosalega erfitt. Vanalega var ég alltaf að fara kollhnís eða í handahlaup, eða bara hlaupa eitthvað um. Fór í fimleika og á skíði, stundaði svo frjálsar og fótbolta. Er enn að.
En sem sagt, snjókoma og skafrenningur á Akureyri í kvöld. Svona rétt til að minna mig á veðrið á Íslandi. Stuð.
Athugasemdir
Öfunda þig nú pínu á að fá að "njóta" alvöru vetrarveðurs á Akureyri ... hér í Borginni er bara kalt og rok, engin snjór frekar en fyrri daginn :(
En mig langaði til að benda þér á það sem allir þeir sem skokka eitthvað á vetrum, amk á Íslandi, þurfa að eiga, gorma broddar :)
https://secure.islandia.is/hlaup/product.asp?product=263Hrafnhildur (IP-tala skráð) 6.1.2011 kl. 23:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.