Kínverjar á móti deyjandi fólki

Nú liggur fyrir áætlun um að byggja svokallað 'hospice' á svæði Háskólans í Bresku Kólumbíu, en 'hospice' er nokkurs konar sjúkraheimili ætlað dauðvona sjúklingum. Á undanförnum dögum hafa komið fram hörð mótmæli gegn þessari áætlun frá kínverskum íbúum svæðisins, sem allir búa í stórri blokk við hliðina á hinu áætlaða byggingasvæði. Þeir segja að það sé gegn menningu þeirra að hafa fólk deyjandi í bakgarði sínum. Þeir vilji ekki sjá drauga á sveimi. Kínverska menningarfélagið í borginni hefur nú staðið upp til að gagnrýna þessa fyrrum landa sína og segja að í kínverskri menningu sé einmitt mikið lagt upp úr því að fara vel með sjúka og aldraða og það sé því alls ekki gegn kínverskri menningu að byggja þarna hospice. Þetta er því orðin ein hringavitleysa, og margir vilja trúa að eigendur íbúða blokkarinnar séu fyrst og fremst að hugsa um söluverðmæti íbúða sinna og noti draugana sem fyrirslátt.

Eins og gefur að skilja hafa komið frammargar gagnrýnisraddir á þessi viðhorf íbúanna, og meðal annars verið bent á að þetta fólk er enn lifandi og á að eiga kost á bestu mögulegu umönnun. Þetta er ekki kirkjugarður eða líkbrennsla. Viðbrögð þessa fólks eru í raun þau sömu eins og þegar byggja á áfangaheimili fyrir fanga, eða meðferðarstofnanir fyrir eiturlyfjasjúklinga. Maður getur skilið, svona ef maður reynir, af hverju fólk vill ekki eiturlyfjaneitendur eða fyrrum glæpamenn í  kringum börnin sín - en veikt fólk inni á sjúkrastofu????? Þetta er fáránlegt. Hugsið ykkur að vilja ekki búa við hliðina á sjúkrahúsi því fólk deyr þar inni?

Annars er þetta vandamál sem aldrei hefði átt að koma upp, því háskólinn hefði aldrei átt að láta eftir svæði undir blokkir, aðrar en þær sem tilheyra háskólanum. Á sama tíma og ekki er hægt að bjóða nemendum upp á niðurgreitt húsnæði er verið að fylla lóðirnar af fólk sem ekkert hefur með háskólann að gera. Ég skil ekki einu sinni af hverju þetta fólk vill búa þarna. Ég meina, þetta er háskólalóð og allt fullt af nemendum. Aðeins ein kjörbúð er á svæðinu og hún kom bara í fyrra. Ég geng í skólann en hef aldrei viljað búa á svæðinu. En nei, þeir hafa verið að selja hverja lóðina á fætur annarri og upp hafa risið rándýr húsnæði sem eingöngu eru ætluð þeim sem nóg hafa á milli handanna. Og það er oft fólkið sem hefur keypt sér ríkisborgararétt í landinu. Aðallega fólk frá Hong Kong. Fólk þaðan hefur streymt til landsins á undanförnum árum og svo framarlega sem það fjárfestir í borginni fyrir ákveðna upphæð eru engin takmörk sett á hversu margir koma inn. Á sama tíma er verið að takmarka geysilega innflutning fólks, t.d. frá Evrópu, af því að það hefur ekki eins mikið á milli handanna. Ég þekki eitt dæmi þar sem stór hópur nemenda sóttu um landvistaleyfi til að hefja nám í ákveðnu fagi. Hópurinn var fremur einsleitur, einn Íslendingur, einn Þjóðverji og afgangurinn asískur. Þegar til kom var báðum Evrópubúunum hafnað en allir Asíubúarnir fengu leyfið. Skrítið.

Ég er ekki að skrifa þetta útaf einhverjum rasisma - ég á góða vini af asískum uppruna. En það er ekki eðlilegt hversu miklu auðveldara það virðist vera fyrir fólk frá Asíu að fá landvistarleyfi en fólk frá öðrum stöðum. Í þessari umtöluðu blokk á UBC, t.d., eru 80% íbúanna frá Asíu. 80% í einni blokk á háskólasvæði. Í Richmond, sem er svona Kópavogur sunnan við Vancouver er talið að um 60% allra íbúa borgarinnar sé af asískum uppruna. Ég hef heyrt hærri tölur. Flest skilti borgarinnar eru bæði á ensku og kínversku, þótt franska sé hitt opinbera tungumálið. Á sama tíma fær t.d. fólk frá Póllandi ekki einu sinni leyfi til að heimsækja landið, því yfirvöld eru svo hrædd um að fólkið ætli sér að setjast bara að. Já, svona er nú hringavitleysan.

Mér finnst innflutningur fólks eðlilegur, sérstaklega í eins stóru landi og Kanada þar sem nóg er af landsvæði og vitað er að landið þolir ekki bara fólksfjölgun heldur þarf á henni að halda. En það verður að hafa einhvers konar samræmi í því hverjir fá að flytjast til landsins. Svona bland í poka dæmi. Það gengur ekki að einn menningarhópur fái að streyma inn á meðan öðrum er bannað að koma. Jájá, það kemur landinu vel að fá inn fólk með mikla peninga, en peningar eru ekki allt. Það verður líka að huga að svo mörgu öðru.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

sögdu inuitarnir og indíánarnir..

Baldvin Kristjánsson, 20.1.2011 kl. 08:31

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Já, þeir hefðu sjálfsagt verið ánægðir með hafa aldrei fundist.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.1.2011 kl. 20:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband