Jafnrétti til náms
26.1.2011 | 19:09
Í dag las ég sorglega frétt um einstæða móður í Ohio, Bandaríkjunum, sem nýlega var dæmd í tíu daga fangelsi og þriggja ára skilorðsbundinn dóm fyrir það eitt að senda börnin sín í skóla utan síns hverfis. Hún býr í fátæktarhverfi í Akron, Ohio, hinum svokölluðu 'projects', og skólinn sem þjónar hverfinu er einn þessa skóla þangað sem börnin eru send yfir daginn án þess að nokkur metnaður sé lagður í að mennta þau. Við höfum öll séð bandarískar kvikmyndir sem taka þesslags skólakerfi fyrir. Hver man ekki eftir Michelle Pfeiffer í Dangerous Minds. Framtíð barnanna í þessum skólum er dökk og kraftaverk þarf helst að gerast til að fólk á þessum svæðum nái að flytjast úr þessum hverfum.
Þessi kona, Kelley Williams-Bolar, þráði betri framtíð fyrir börnin sín. Sjálf vann hún að kappi ásamt því sem hún gekk í skóla til að verða kennari. Hún skráði börnin sín til heimilis hjá föður sínum sem bjó í öðru og betra skólakerfi. Þegar þetta komst upp var hún handtekin, send til dómara og sagt að hún hafi svikið $30,500 US út úr skólakerfinu í formi skólagjalda. Faðir hennar var einnig dæmdur fyrir þjófnað.
Ofan á þetta er Kelley nú með óhreint sakavottorð og mun aldrei fá að nota kennaramenntun sína (sem hún var nærri búin með) því í Bandaríkjunum fá kennarar ekki að kenna ef þeir eru ekki með hreint sakavottorð.
Framtíð Kelley og dætra hennar er því nær að engu orðin og hún er dæmd til þess að komast aldrei út úr þeirri félagslegu stöðu sem rak hana til þess að grípa til þessara ráða.
Ég veit ekki hvernig Bandaríkjamenn ætla að leysa félagslegu vandamál sín og þá sérstaklega skólamál, en það er nokkuð ljóst að þar í landi ríkir ekki jafnrétti til náms.
Athugasemdir
USA. Furðulega samansett ríkiæ
Þórdís Bára Hannesdóttir, 26.1.2011 kl. 19:25
Já, það er margt undarlegt þar.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 27.1.2011 kl. 00:20
Sorgleg saga, vona að staða þessarar konu og barna hennar verði rétt við -þetta er hreinlega fáránlegt! Getur konan ekki lagt málið undir mannréttindadómstól?
Rut (IP-tala skráð) 27.1.2011 kl. 12:21
Það er spurning.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 27.1.2011 kl. 17:36
Ekki er allt sem sýnist í Bandaríkjunum. Margir Íslendingar hafa rekið sig á í þessum efnum af þekkingarleysi. Einhver innri spenna býr að baki. Mér finnst Bandaríkjamenn áhugasamir um mannréttindi í öðrum löndum en heima fyrir er brotalöm innbyggð í kerfið. Menn hafa ekki þá öryggiskennd sem maður finnur í Kanada eða Evrópu. Hagsmunir viða um lönd og hernaðarbröltið skapar ógn og skaðar innríkið.
Sigurður Antonsson, 30.1.2011 kl. 18:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.