Spjaldaglaður dómari eyðileggur möguleika okkar á sigri í deildinni
31.1.2011 | 18:50
Við stelpurnar í Presto spiluðum okkar athyglisverðasta leik um helgina. Fyrir leikinn vorum við í fyrsta sæti okkar riðils en liðið sem við spiluðum á móti var í öðru sæti og átti leik til góða. Við urðum að vinna þennan leik til að vinna deildina. Við töpuðum 3-1 fyrir liðinu síðast og spiluðum þá ekki mjög vel.
Fyrir leikinn lagði þjálfarinn mikið upp úr því að við byrjuðum vel því liðið hefur átt það til að vera lengi í gang og stundum vöknum við ekki alveg fyrr en við erum komin einu eða tveim mörkum undir og þurfum þá að berjast til baka. Það hefur vanalega tekist en á móti eins sterku liði og þessu er slíkt ekki gott. Þetta tókst og við byrjuðum af kappi. En undir lok fyrri hálfleiks dró til tíðinda.
Hitt liðið, Mudslide, var í harðri sókn og boltinn skoppar af vellinum (lélegum gervigrasvelli) og í hendur varnarmanns okkar. Dómar flautar umsvifalaust og kallar á vítaspyrnu, en að auki gefur hann varnarmanninum rautt spjald. Ég hef spilað í þessari deild í sjö ár og hef aldrei áður séð rautt spjald gefið. Ekki einu sinni fyrir verstu brot, og aldrei fyrir hendi. Það er rétt að dómarinn hefur rétt til þess að gefa rautt spjald en hann þarf þess ekki. Enginn annar dómari í deildinni gefur rautt fyrir hendi. Þetta er fjórða deild kvenna. Geymið rauðu spjöldin fyrir brot. Hann tautaði eitthvað um að honum þætti fyrir því en hann yrði að gera þetta. Bull. Þær skoruðu úr vítaspyrnu og staðan 1-0. Við þar að auki manni færri.
Við héldum hins vegar áfram að spila frábæran leik en komumst ekki í margar sóknir þar sem miðjan þurfti að spila hálfgerða vörn og því var erfitt að koma boltanum til framherja, sem þar að auki voru tveir á móti fjórum varnarmönnum í hinu liðinu.
Þegar um tíu mínútur voru eftir að leiknum skaut Adrienne í okkar lið fallegum bogabolta að markinu sem stefndi í bláhornið hægra megin. En einhvern veginn náði markmaðurinn að koma hönd á boltann og þar sáum við flottustu markvörslu í fjórðu deild kvenna síðastliðin sjö árin. Ótrúlegt að hún skyldi ná þessu. En þar með var ekki búið. Einn af okkar miðjumönnum hafði komið hlaupandi að markinu þegar Adrienne skaut og var að reyna að stoppa sig á rennblautum vellinum. Var hálfdettandi þegar markmaðurinn hleypur að henni á eftir boltanum sem hún hafði þá rétt varið, og miðjumaðurinn okkar dettur beint fyrir framan markmanninn sem þá dettur um liggjandi miðjumanninn. Það var augljóst okkur öllum sem horfðum að miðjumaðurinn okkar var að reyna að stoppa sig og rann. Hún var ekki að reyna að taka markmanninn. En dómarinn sá þetta ekki svo og aftur fór rauða spjaldið á loft. Skil ekki af hverju. Ég veit ekki hversu oft hefur verið verr brotið á mér en þetta án þess að nokkuð spjald sé gefið. Og ef hann vildi senda skilaboð hefði hann getað gefið gult spjald. Í staðinn sendi hann okkur tvo menn niður og með níu leikmenn gegn ellefu varð erfiðara að verjast og hitt liðið náði að skora. 2-0 tapaður leikur, allt fíflinu dómaranum að kenna.
Og hér er það sem gerir þetta merkilegt. Í sjö ára sögu liðsins höfum við nú fengið tvö rauð spjöld og fjögur gul. Rauðu spjöldin tvö og tvö af fjórum gulum spjöldum komu frá sama dómaranum. Og hann hefur aðeins dæmt leikina okkar tvisvar. Sem þýðir að hann hefur gefið að meðaltali tvö spjöld í leik á meðan aðrir dómarar hafa gefið tvö spjöld samtals á sjö árum. Er ekki eitthvað að þessum reikningi?
En með þessum leik duttum við niður í annað sætið og vonin um sigur í deildinni að engu. Reyndar hefst núna úrslitakeppnin sjálf og þar munum við spila gegn lélegri liðum þar sem við vorum í fyrsta sæti þegar raðað var í riðla, og eigum því þokkalega möguleika á að komast langt. NEma hvað við þurfum að spila án þeirra tveggja leikmanna sem fengu rautt.
Athugasemdir
Aurskriða og skandaladómari eru ekki skemmtileg viðureignar...nú takið þið þetta bara í nefið í úrslitakeppninni!
Rut (IP-tala skráð) 1.2.2011 kl. 08:27
Þetta kennir þér frænka sæl, að sleppa íþróttaiðkun. Hún veldur bara vonbrigðum og meiðslum.
Sigurjón, 3.2.2011 kl. 20:26
Nema hvað að ef ég væri ekki í íþróttum þá sæti ég heima og æti og yrði svo feit að það yrði að ýta mér á milli staða í rúmi með hjólum. Ég hef svo hrikalega hæga brennslu. Verð að vera stanslaust spriklandi til að halda mér í þolanlegu formi. Þar að auki er þetta svo helv. skemmtilegt.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 3.2.2011 kl. 21:03
Það er nefnilega það. Gott ef svo er. Þá er varla ástæða til að kvarta, eða hvað...
Kveðja til Kanödu.
Sigurjón, 4.2.2011 kl. 01:56
Þjóðin býður spennt eftir frásögn af 8. feb!!!! Einhverntíman hlýtur fagnaðarlátunum að ljúka og þú að fá tíma til að skrifa svolítið...eða skæpast!
Rut (IP-tala skráð) 11.2.2011 kl. 15:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.