Doktorstitillinn hérumbil í höfn
15.2.2011 | 03:47
Jæja, það er víst kominn tími til að ég skrifi aðeins um atburð síðustu viku. Á þriðjudaginn var varði ég nefnilega doktorsritgerð mína, Aspects of the Progressive in English and Icelandic. Vörnin var löng og erfið enda mikið spurt og dómnefndin misjafnlega óvægin. En mér skilst á vinum mínum sem voru þarna að ég hafi staðið mig vel og ekki látið setja mig út af laginu. Mér var líka sagt að fyrirlesturinn hafi verið skýr og vel fluttur og það sögðu jafnvel þeir sem ekki eru í málvísindum. Það þótti mér gott að heyra. Til að gera langa sögu stutta þá stóð ég prófið en fékk heim með mér lista af athugasemdum frá dómnefndarmönnum sem vilja láta gera ýmsar breytingar. Við því var að búast - það er undantekning ef ekki er beðið um breytingar. Athugasemdirnar voru reyndar fleiri en ég bjóst við en þá er bara að bretta upp ermar og skella sér í lokahnykkinn. Aðalatriðið er að ég stóð vörnina og er því svona hérumbil orðin doktor. Enda hafa vinir mínir verið að prófa hvað fer best saman: Dr. Jóhannsdóttir, Dr. Stína, Dr. Kristín, Dr. J. Ég er hrifnust af Dr. J og myndi þar með feta í fótspor körfuboltasnillingsins Julius Erving.
Myndin hér á síðunni er tekin þegar ég er nýkomin út af vörninni og með mér er Peter vinur minn sem varði sína ritgerð fyrir jólin. Ég er svo úrvinda að ég náði ekki einu sinni að brosa fyrir myndina svo það mætti halda að ég væri ekkert ánægð með að ljúka þessu prófi.En það er nú öðru nær. Það er mikill léttir að vera búin með þetta en mér mun líða enn betur þegar ég er búin að skila inn ritgerðinni.
Á laugardaginn var liðið ár frá því Ólympíuleikarnir voru settir, 12. febrúar 2010. Í því tilefni var heilmikið partý í borginni og meðal annars var Ólympíueldurinn tendraður á ný. Reyndar var mígandi rigning allan daginn sem gerði það að verkum að ég nennti ekki út en um kvöldið fór ég svo í heljarinnar partý þar sem komu saman þeir fyrrum starfsmenn sem enn eru í borginni. Þar hitti ég fjölda félaga. Suma hefur maður ekki séð í heilt ár, aðra hitti ég reglulega enda breyttust þeir úr vinnufélögum í vini. Mikið var þetta skemmtilegur tími þarna í fyrra.
Athugasemdir
Hjartanlega til hamingju Dr Stína, auðvitað steinlá þetta af þinni hálfu.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 15.2.2011 kl. 06:50
Dr. progressive?
:)
Rut (IP-tala skráð) 15.2.2011 kl. 08:24
Til hamingju með þennan stóra áfanga.
Jóhann Elíasson, 15.2.2011 kl. 09:40
Hamingjuóskir og gangi þér vel með framhaldið :)
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 15.2.2011 kl. 23:14
Takk kærlega öllsömul.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 16.2.2011 kl. 00:10
Bestu hamingjuóskir úr mínu húsi.
BH
Bernharð Haraldsson (IP-tala skráð) 18.2.2011 kl. 22:11
Til hamingju með þennan stóra áfanga. Líka gaman að heyra af nýju vinnunni á Íslandi. Gangi þér allt í haginn og sjáumst etv á Íslandi áður en langt um líður!
AuðurA (IP-tala skráð) 19.2.2011 kl. 16:56
Bestu hamingjuóskir, Dr. J (sem mér finnst kúl !) og svo lýkur þú þessu með stæl !
Kveðja, KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 21.2.2011 kl. 07:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.