Á leið heim

Fjölskyldan, vinir og vinir á Feisinu hafa nú þegar heyrt fréttirnar en þeir sem bara fylgjast með mér í gegnum þetta blogg ekki. Og því er tími kominn að segja ykkur hvað gerðist í síðustu viku.

Undir lok síðasta árs byrjaði ég á því að líta á auglýstar prófessorsstöður, sem þá voru fyrst og fremst auglýstar í Bandaríkjunum. Lítið var í boði á mínu sviði, merkingarfræði.Kannski einar þrjár stöður í fræðunum auk nokkurra í almennum málvísindum. Ég held ég hafi sótt um sjö. Búin að fá þrjú nei og hef ekki heyrt neitt frá hinum. Sumir eru enn að velja, aðrir láta mann bara ekkert vita. Líkurnar á að fá stöðu voru litlar frá upphafi. Vel yfir hundrað manns sóttu um hverja stöðu, og því miður er það staðreynd að í akademískum fræðum er töluvert um snobb og það skiptir máli frá hvaða skóla þú útskrifast. Ef þú ert með próf í málvísindum frá MIT er t.d. nokkuð öruggt að þú fáir vinnu. Allir vilja bólstra deildir sínar með prófessorum frá þeim virta skóla - jafnvel þótt Chomsky sé að mestu hættur að kenna.A Olympiuleikunum

Margir spurðu mig hvort ég ætlaði til Íslands að námi loknu. Ég taldi það ekki líklegt. Vegna fjárhagsstöðu landsins hefur mikið verið skorið niður til menntamála og HÍ hefur varla ráðið kennara í hugvísindum síðastliðin fimmtán ár. Sá niðurskurður gerðist sem sagt löngu fyrir hrun. Eitt sinn voru a.m.k. fjögur stöðugildi innan málvísindadeildar, nú er þar held ég einn fastur kennari. Íslenskudeildin hefur staðið sterkar en þar er ekki heldur mikið ráðið. Og lausar stöður virtust ekki heldur vera innan íslensku fyrir erlenda stúdenta eða kennarasviðs. Og íslenskukennarar við Háskólann á Akureyri eru yngri en ég og eru því ekki beinlínis á leið á eftirlaun. Þannig að ég sagði alltaf nei. Ég væri ekki á leið til Íslands.

En á einni nóttu breyttist allt. Fyrrverandi umsjónarkennari minn og núverandi vinur, Eiríkur Rögnvaldsson, stýrir um þessar mundir íslenska hluta samevrópsks málvísindaverkefnis þar sem til stendur að skrásetja nákvæmlega stöðu evrópsku tungumálanna og hann bauð mér vinnu við verkið. Ég þurfti ekki mikið að hugsa mig um. Þarna gafst mér tækifæri til að koma aftur heim.

Lengst af langaði mig ekkert til Íslands. Þ.e. það stóð alltaf til að koma heim að lokum, en lengst af var ég ekki tilbúin. Mér líður vel í Kanada, hér á ég góða vini og Vancouver er eins og allir vita sem lesa blöðin, besta borgin að búa í. Hefur nú verið kosin það fimm ár í röð. Hér er reyndar dýrt að búa en veðurfar, náttúra og tækifæri gera borgin dásamlega. Það tekur mig tíu mínútur að ganga niður á strönd þar sem ég syndi í sjónum á sumrin. Það eru skíðasvæði beint fyrir ofan borgin og Whistler í tveggja tíma fjarlægð. Það er hægt að skjótast til Seattle á þrem tíum. Kletta fjöllin eru í nokkurra tíma keyrslu. Hér spila ég fótbolta og klifra í klettum. 

En í vetur sat ég í tíma hjá einum kennara mínum. Ég var aðstoðarkennari og sá um að fara yfir próf og verkefni. Stundum reikaði hugurinn út úr tímum, enda kunni ég efnið vel. Einn daginn varð ég heltekin lönguninni að fara heim. Ég fylltist hreinlega heimþrá eins og þeirri sem ég hef ekki haft síðan fyrsta árið mitt erlendis. Mig hreinlega langaði að flytja aftur heim. Sjá fjölskyldu mína oftar en annað hvort ár. Borða slátur þegar mig langar. Helst langaði mig til Akureyrar. Þessi tilfinning kom til baka þegar ég kom heim um jólin. Mér fannst ég vera tilbúin til þess að flytja til baka. En þrátt fyrir það óraði mig ekki að það myndi gerast svo fljótt.

Núna eru tilfinningar blendnar. Ég hlakka til þess að flytja heim, en ég kvíði líka fyrir því að yfirgefa þessa paradís sem Vancouver er. Ég kvíði fyrir að kveðja vini mína en mest kvíði ég fyrir því að borga Eimskip reikninginn fyrir því að flytja dót mitt heim.

En sem sagt, á leið heim til Íslands eftir tæplega tólf ár í Kanada. Ef einhver veit um góða en ekki mjög dýra tveggja herbergja íbúð sem verður laus annað hvort í maí eða júní þá má sá hinn sami gjarnan láta mig vita. Sérstaklega ef má hafa gæludýr, því mig dreymir um að eignast aftur kött. Hef ekki átt kött í tæp tuttugu og tvö ár en elska þessi litlu kríli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Reykjavík er náttúrulega ekki Vancouver, en það er samt meira um að vera þar en í flestum öðrum borgum af sömu stærðargráðu, leikhús, tónleikar og aðrir listviðburðir -stutt í bláfjöllin (ehemm) og nauthólsvíkina (ehemm), og feykinóg af náttúru til að njóta. Gangi þér vel að hnýta alla hnútana og koma þér aftur heim. Heyrumst fljótlega -við ræddum eiginlega bara um ísland síðast og ég steingleymdi að hlýða þér yfir um 8. feb!

Rut (IP-tala skráð) 23.2.2011 kl. 20:30

2 identicon

Frábært að heyra!  Líkt og Rut segir þá er Reykjavík ekki Vancouver, en hér geturu samt farið í sjósund (ekki eins hlýtt), farið á skíði (ekki eins örugg snjóalög!), farið á skauta, skokkað með eða án skokkklúbba, keypt þér árskort á skít og kanel í klifurhúsið og klifrað að vild og skundað svo í Valshamar á sumrin með góðum félögum og síðast en ekki síst, hitt fullt af útlendingum á kaffihúsum borgarinnar ;)

Gangi þér vel í loka hnikknum - Ísland er heppið að fá þig aftur heim.

p.s svo er alltaf stutt til Akureyrar :)

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 25.2.2011 kl. 01:31

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk stelpur mínar. Þetta er alveg rétt hjá ykkur.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 25.2.2011 kl. 16:19

4 Smámynd: Sigurjón

Sæl frænka og vertu ávallt velkomin heim á Frón! Ég hlakka til að hitta þig máski síðar.

Kv. Sigurjón

Sigurjón, 27.2.2011 kl. 04:11

5 identicon

Húrra!! Fann bloggsíðuna þína fyrir tilviljun þegar ég var að leita að Winnipeg Icelander - nemandi þinn frá Winnipeg sem fór til Íslands og býr þar enn og vinnur m.a.s. í Árnagarði

Katie (IP-tala skráð) 28.2.2011 kl. 10:50

6 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Við eigum örugglega eftir að hittast frændi.

Katie, ertu ennþá á Íslandi??? Ja hérna, þið tvö sem ég sendi þangað hafið þá bæði sest að. David er bara giftur og kominn með barn. Hann var í fyrsta hópnum sem ég kenndi í Manitoba. Heyrðu, fyrst þú vinnur í Árnagarði þá eigum við líklega eftir að hittast reglulega.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 1.3.2011 kl. 04:49

7 identicon

Jebbs, búin að setjast að og giftast en bara David kominn með barn :)

Katie (IP-tala skráð) 2.3.2011 kl. 14:56

8 Smámynd: Halldór Jóhannsson

Til hamingju með Doktorstitillinn:)

Já vertu bara velkomin á klakann aftur,þó eigi sé það spennandi tímar sem við nú lifum á í augnablikinu:):):)

Ætli þeir í Eimskip afskrifi ekki bara reikninginn,ef þú nefnir bara einhvern útrásarkálfanna sem borgunaraðila:):)

Trúi að það verði mikill söknuður af vinunum og staðnum..

Vona að þú finnir góða íbúð á sanngjörnum kjörum,ef það finnst í RVK:)???

Þú getur rennt líka á Skagann á LANGASAND og stundað þar sólbað og sjósund...ekki bara Nauthólsvík,hehe:)

Kveðja.

Halldór.

Halldór Jóhannsson, 6.3.2011 kl. 22:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband