Vestur-Íslendingur leikur á Superbowl
3.2.2007 | 23:12
Ef einhverjir íþróttaáhugamenn á Íslandi ætla sér að horfa á Superbowl um helgina en vita ekki með hvaða liði þeir ættu að halda skal hér með bent á að í liði Indianapolis Colts leikur Vestur-Íslendingurinn Rob Morris (starting outside linebacker). Langalangafi hans og -amma, Eyjólfur Eiríksson og Jarþrúður Runólfsdóttir fluttu til Utah á árunum 1886 og 1887.
Sjálf efast ég nú um að ég nenni að horfa enda aldrei verið mikið gefin fyrir ameríska fótboltann. Hefðist helst viljað sjá auglýsingarnar sem sýndar eru í kringum leikinn enda mikið í þær lagt, en hér í Kanada fáum við ekki að sjá þær því þegar að auglýsingahléi kemur er klippt yfir á kanadískar auglýsingar sem eru bara þessar sömu gömlu.
Það væri annars athyglisvert að taka saman einhvers konar lista yfir vestur-íslenska afreksmenn því það er alveg óhætt að segja að þeir afkomendur forfeðra okkar sem fluttu vestur um haf um þarsíðustu aldamót hafa komið sér ákaflega vel fyrir í hinum nýja heimi og margir hverjir hafa komist til metorða á sviði stjórnmála, lista, fræða, íþrótta o.s.frv.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.