Útsláttarkeppni í boltanum
14.3.2011 | 05:37
Það virðist sem hver einasti fótboltaleikur sem ég spila þessa dagana fari fram í mígandi rigningu. Enda hefur ekki mikið stytt upp í Vancouver undanfarna tvo mánuði. Gallinn er að þegar rignir svona eru leikirnir færðir á gervigras og einhverra hluta vegna spilar liðið mitt aldrei eins vel á gervigrasinu. Við unnum held ég alla leikina í vetur sem leiknir voru á grasi, en töpuðum flestum leikjum á gervigrasi.
Keppnin er þannig að fyrst er farið í riðlakeppni, svokallaðan Round Robin, og efsta liðið í hverjum riðli heldur í lokakeppnina um bikarinn. Hin liðin þrjú fara svo í hálfgerða aukakeppni og leika nokkurn veginn um bikar tapliða. Eitt liðið í okkar riðli hætti keppni svo þrjú lið voru eftir. Unnum fyrri leikinn og töpuðum þeim síðari. Það sama gerðist hjá hinum liðunum tveim svo öll lið voru jöfn með þrjú stig. Því miður var markatala okkar ekki svo besta svo við lentum í keppni tapliða en ekki í keppninni um bikarinn.
Og svo vorum við látnar spila aftur gegn liðinu sem í raun sló okkur út í síðustu viku. Sá leikur hafði verið ótrúlegur. Heppnin var ekki með okkur. Við áttum ábyggilega 20 skot að marki en ekkert fór inn. Við hittum stöng og slá og bjargað var á línu oftar en einu sinni. Það var eins og ósýnilegt net væri fyrir markinu. Í dag var þetta aðeins betra. Við áttum reyndar færri skot að marki en tvö fóru inn svo staðan var 2-2 í lok venjulegs leiktíma. Þá var farið beint í vítakeppni. Ég þoli ekki vítakeppnir. Alltof stressandi. Fer á taugum. Við fimm sem valdar vorum til að taka vítin fengum að ráða sjálfar í hvaða röð við færum svo ég bað um að fá að fara fyrst - minna stress en síðar. Það dugði og ég skoraði örugglega. Liðin héldust í hendur - þær skoruðu, við skoruðum, þær brenndu af, við brenndum af... svo skoruðu bæði lið og svo brenndu bæði af. Komið í fimmtu umferð. Þær skutu fyrst og skutu framhjá. Allt stressið á varnarmanninn Meghan. Og hún skýtur...beint á markmanninn. NEMA, markmaðurinn náði ekki að halda boltanum, hann skoppaði í jörðina...innan við marklínu. Við stóðum allar svekktar og horfðum á þar til Meghan byrjaði að hoppa upp og niður og fagna. Dómarinn hafði dæmt mark.
Við erum þá komnar í fjögurra liða úrslit í keppni tapliða. Eða eins og við segjum: We want to be the winners of the loosers!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.