Alveg magnaður leikur
20.3.2011 | 23:20
Ég var þarna á leiknum eins og reyndar margir aðrir Íslendingar enda þurfum við að styðja Teit og strákana hans.
Ég var einmitt á síðasta leik liðsins í USL deildinni, sem einnig var síðasti leikurinn á Swangard vellinum, en þegar liðið komst upp um deild var Swangard ekki nógu stór enda tók hann held ég ekki nema um 5000 manns. Þessi nýi völlur, Empire Fields, er bara til tímabundinnar notkunar á meðan verið er að breyta BC Place þannig að leikvangurinn sé með opnanlegu þaki. Reyndar þarf slíkt ekki fyrir fótboltann því flestir leikir eru vor, sumar og haust, og þá rignir ekki svo mikið, en kanadíski fótboltinn mun nota sama völl og þeir
leika vel inn í vetrarmánuðina og þá er gott að geta skellt þakinu yfir svo ekki verði allir blautir.
Það var heilmikil opnunarhátíð fyrir leikinn og myndin með moggafréttinni sýnir m.a. körfuboltasnillinginn Steve Nash ásamt Christie Clark, nýjum fylkisstjóra BC. Ekki kom hins vegar fram að ástæða þess að Nash var þarna var sú að hann á hlut í Whitecaps liðinu. Hann er sem sagt bossinn hans Teits, ef svo má segja.
Liðið byrjaði ekkert sérlega vel. Virtust svolítið hægir og Toronto virtist líklegri til að taka þetta, en eftir fyrsta mark Whitecaps færðist líf í leikmenn og þeir tóku við stjórn leiksins. Eftir það virtist sigurinn aldrei í hættu enda náðu þeir að komast í 4-1 áður en Toronto minnkaði muninn í tvö mörk. Jay Nolly stóð í marki Whitecaps en hann hefur verið aðalmarkvörður liðsins undanfarin þrjú eða fjögur ár, en ég er nokkuð viss um að honum er ætlað að vera varamarkvörður því mig minnir að Teitur hafi fengið til sín nýjan markmann.
Skemmtilegur leikur og alltaf gaman að vinna Toronto, sama hver íþróttin er. Vonandi er þessi sæti sigur von um það sem koma skal og vonandi nær Teitur góðum árangri með strákunum. Sumir eru svo bjartsýnir að halda að þeir komist alla leið í sumar en það er kannski óþarfa bjartsýni. Þeir hafa að mestu leyti nýjan mannskap og strákarnir eiga eftir að spila sig saman. Ég myndi segja að ef þeir komast í úrslitakeppnina þá megi það teljast viðundandi árangur fyrsta árið í efstu deild.
Frábær byrjun Teits í MLS-deildinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Já vonandi gengur Teiti og hans mönnum vel í deildinni:)
Bestur kveðjur..
Halldór Jóhannsson, 21.3.2011 kl. 22:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.