Ekkert samræmi í stafsetningu

Hér vantar samræmi í stafsetningu. Í fréttinni segir:

"Sjö ríki Bandaríkjanna selja marijúana í lækningarskyni á opnum markaði. Það eru ríki Kalifornía, Colorado, Michigan, Montana, Washington, Oregon og New Mexico. Í fjórum öðrum ríkjum Arizona, Rhode Island, New Jersey og Maine auk Washington D.C. munu sölustaðir fyrir þessa vöru opna síðar á árinu. Varan er leyfileg í Havaí, Nevada, Alaska og Vermont, en í þessum ríkjum eru ekki opnir sölustaðir."

Takið eftir að stafsetningu Hawaii er breytt hér í Havaí, væntanlega samkvæmt íslenskum stafsetningarreglum þar sem við notum hvorki w né tvöfalt i. En hvers vegna er þá Washington skrifað með tvöföldu vaffi? Varla er w í Hawaii meira á móti íslenskum reglum en w í Washington. Er ekki lágmark að viðhalda sömu stöðlum innan sömu málsgreinar? Og því ekki bara nota ensku stafsetninguna í þessu tilfelli. Það er engin hefð fyrir því að kalla Hawaii Havaí eftir því sem ég best veit.


mbl.is Sala á marijúana verði meiri en á Viagra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Alveg sammála þér, Kristín. Svona ósamræmi sker í augun. Annað hvort er að nota staðarnafnið eins og það er á frummálinu eða íslenzka það.

Mér þykir það einnig mjög hvimleitt þegar fréttamenn þýða fréttir úr ensku og láta staðarnöfnin flakka með á ensku. S.s. St. Petersburg fyrir Skt. Pétursborg, Munich fyrir München, Milan fyrir Mílanó eða jafnvel Bavaría fyrir Bæjaraland eða Bayern (sem hvorttveggja væri rétt).

Emil Örn Kristjánsson, 25.3.2011 kl. 20:04

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Mikið er ég sammála þér þar Emil. Ensk nöfn á óenskum borgum eiga aldrei að sjást á íslensku miðlunum. Íslensk nöfn eða nöfn á frummálinu eru það eina rétta. Held meira að segja að þetta sé tekið fram í málstefnu RÚV. En aðrir miðlar hafa engar málstefnur, því miður.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 25.3.2011 kl. 21:24

3 Smámynd: Reputo

Mér finnst að það eigi bara aldrei að þýða sérnöfn. London heitir London en ekki Lundúnir, Kaupmannahöfn heitir København sem réttara væri að þýða Kauphöfn frekar en Kaup"manna"höfn. John heitir John, ekki Jón o.s.fv.

Þýðing sérnafna þjónar engum tilgangi, er kjánaleg og getur einungis leitt af sér misræmi og misskilning.

Reputo, 26.3.2011 kl. 18:20

4 identicon

Ég veit að þú hefur svo gaman af lélegri stafsetningu í íslenskum dagblöðum, hvernig lýst þér á þetta sem ég fann í fyrirsögn núna áðan á veröld mörtu á Pressunni:

"Halle Berry er dugleg að hugsa um sjálfa sig og þykir hún vera ein vel vaxnasta leikkonan í Hollywood."

er þetta ný íslenska sem ég hef misst af eða hvað?

Rut (IP-tala skráð) 4.4.2011 kl. 13:01

5 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Vel vaxnasta????? Hahahaha. Vel vaxin, vel vaxnari, vel vöxnust. Þar að auki er 'sjálfinu' þarna ofaukið. Ó, og að auki má misskilja setninguna þannig að henni finnist sjálfri hún vera 'vel vöxnust', en ég geri ráð fyrir að þarna sé átt við að hún þyki vera það en ekki að henni þyki það.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 4.4.2011 kl. 16:38

6 identicon

Já sveimér þá, það væri hægt að skrifa mastersritgerð bara um þessa setningu...hahaha. Gott að vera í vinnu á íslenskum fjölmiðlum með svona góða íslenskukunnáttu!

Rut (IP-tala skráð) 4.4.2011 kl. 18:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband