Íhaldsmenn horfa á íþróttir og óttast hryðjuverk
4.2.2007 | 19:17
Þetta var niðurstaðan úr könnun sem nýlega var gerð í Kanada á háttum stuðningsmanna íhaldsflokksins. íhaldsmenn skipa núverandi minnihlutastjórn undir forystu Stevens Harpers, forsætisráðherra, en flokkurinn á undir högg að sækja og í nýjustu skoðanakönnun er hann nokkuð neðar Frjálslynda flokknum. Þess vegna var gerð þessi könnun til þess að fá betri vitneskju um hverjir kjósa flokkinn. Í ljós kom að nokkur stór hópur er hylltur undir flokkinn en ekki tilbúinn til þess að kjósa hann nema að ákveðnum áherslum verði breytt. Það er auðvitað hópurinn sem Harper þarf að vinna yfir til sín.
Reyndar var líka gerð könnun á svokölluðum Harpers Kanadamönnum, það er, fólki sem myndi kjósa Steven Harper, sama í hvaða flokki hann var. Þar kom í ljós að þetta eru fyrst og fremst karlmenn, þeir drekka Tim Hortons kaffi, horfa yfirleitt ekki á CBC (ríkissjónvarpið), telja Don Cherry kanadíska táknmynd en ekki þjóðarskömm (trúið mér - hann er algjör trúður (sjá hér til hægri)), horfa aðallega á íþróttir í sjónvarpinu, eru skíthræddir við hryðjuverk, eru heldur ríkari en aðrir, er nokkuð sama um umhverfið, eru á móti byssuskráninu og er illa við að hommar og lesbíur fái að gifta sig.
Var nokkurn tímann gerð könnun á því fólki sem fylgdi Davíð Oddssyni í gegnum þykkt og þunnt? Ég veit að hann átti aðdáendur út fyrir Sjálfstæðisflokkinn og það hefði verið gaman að sjá hvernig fólk studdi hann og bera það saman við áhangendur Stevens Harpers. Gætum við búist við svipaðri manngerð eða var það allt annað fólk sem studdi Davíð? Eigum við annars nokkurn stjórnmálamann í dag sem hefur eins mikinn stuðning og Davíð hafði? Hvern gæti verið gaman að skoða? Annars væri líka skemmtilegt að gera svona könnun á fylgismönnum Steingríms J. og athuga hvort allt væri nákvæmlega öfugt við það sem einkennir fylgismenn Harpers. Hey, Moggamenn, hvað með svona skemmtilega könnun á fylgismönnum einstakra stjórnmálamanna???
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.