Strætósögur
4.4.2011 | 01:17
Það er eiginlega ótrúlegt hversu margt merkilegt gerist í strætó. Ef ég væri smásagnahöfundur myndi ég sitja í strætó marga tíma á dag til að viða að mér efni. Maður heyrir undarlegust samtöl, sér undarlegasta fólk og svo lendir maður í alls kyns lífsreynslu.
Annan eða þriðja mánuðinn sem ég var í Winnipeg lenti ég í því að það kviknaði í strætisvagninum sem ég var í. Ég var í vagni númer 60 sem keyrði frá miðbænum eftir Pemberton highway og út í Manitobaháskóla. Þetta var á laugardegi og ég var á leið á sjálfsvarnarnámskeið sem ég tók þarna fyrstu önnina í Kanada. Allt í einu fer ég að finna hálfgerða brunalykt og fólkið í kringum mig greinilega líka því fleiri fóru að hnusa og líta í kringum sig. Enginn segir samt neitt því á veturna er alltaf brunalykt í Winnipeg. Allir að kynda arininn. En allt í einu tók einhver eftir þykkum, svörtum reyk sem lagði frá afturdekki hægra megin í vagninum. Bílstjórinn var látinn vita, vagninn stoppaður og við þurfum öll að fara út og bíða eftir næsta vagni. Sem er aldrei skemmtilegt í frosthörkunum í Winnipeg. Ég kom of seint á æfingu.
Og til að reyna að toppa strætisvagninn sem brann lenti ég í öðru strætisvagnaævintýri á föstudaginn. Var á leið í kvöldmat með vinkonum mínum og tók vagn 99 sem er hraðvagninn úr háskólanum. Vorum á leið niður langa brekku á tíundu götu og ég stóð við aftari dyrnar á vagninum og hafði því gott útsýni. Allt í einu virðist bílstjórinn ætla að skipta yfir á hægri akrein og ég hugsa með mér: Bíddu, er ekki bíll við hliðina á okkur? Og jújú, allt í einu heyrist þetta hræðilega hljóð þegar tveir bílar skrapast saman. Og ég veit ekki hvað var í gangi því strætóinn heldur áfram að þrýstast yfir á hægri akreinina og reyrir jeppann við hliðina fastan við staur. Mikil mildi var að enginn meiddist í jeppanum því bíllinn kramdist á milli strætósins og ljósastaursins. Að lokum kom annar strætó og tók eins marga og hægt var, en þetta gerðist á föstudagseftirmiðdegi stutt frá UBC þegar UBC vagnarnir eru allir fullir af þreyttum námsmönnum. Ég komst í fyrsta vagn og var ekki mjög sein í matinn en hafði alla vega sögu að segja.
Eitt sinn sat ég í strætó á leið úr miðbænum út í Horseshoe Bay þar sem ferjurnar fara yfir í nálægar eyjur. Stelpan fyrir aftan mig var í símanum við vinkona sína og fór að segja henni frá einnar nætur gamni sem hún hafði notið nóttinni áður. Ekki beinlínis samtal sem maður á að hafa í síma. Í enn annað skiptið var heimilislaus maður við hliðina á mér að tala við stelpu (sem hann þekkti ekkert) og fór að segja henni frá því hvernig hann hefði eyðilagt líf sitt með eiturlyfjum og heimsku.
Svo var það skiptið sem ég sat fyrir framan heimilislausan mann með tvo stóra poka af illa lyktandi drasli. Hann lyktaði sjálfur svo illa að allir kúguðust í kringum hann.
Sem sagt, alltaf nóg af söguefni í strætó.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.