Brynjolfson fólkið

Þegar ég bjó enn í Winnipeg frétti ég af því að ég ætti frændfólk á Vancouversvæðinu - Brynjólfsson fólkið. Þau eru afkomendur Sigurðar Brynjólfssonar sem, ef ég man rétt, var systursonur Ívars langafa míns. Frændi minn á Íslandi reddaði mér heimilisföngum þessa frændfólks míns og ég sendi þeim bréf og sagði þeim að ég væri að flytja á svæðið. Þau tóku mér ákaflega vel og fyrstu eða aðra helgina sem ég var í Vancouver var mér boðið með þeim í útilegu að Logan vatni hér í Bresku Kólumbíu. Þar hitti ég hreinlega alla fjölskylduna eða svo sem. Börn Sigurðar urðu sex og þau giftust öll og eignuðust börn. Þarna hitti ég sem sagt fólk af öllum ættbogum nema þeim sem flutti til Bandaríkjanna.
 
Upp frá þessum degi var alltaf komið fram við mig sem eina af fjölskyldunni og ég hef eytt með þeim mörgum jólum, páskum og þakkagjörðardögum. Sérstaklega hef ég umgengist börn Brynjólfs, eða Bens eins og hann kallast hér. Hann á fjórar dætur sem allar eru nokkuð eldri en ég, og eru þær systur mjög nánar. Ég hef líka farið í mat til Sigurðar - sem ýmist er kallaður Sig eða Sam - og hans konu Ginny, svo og í boð og veislur til fleiri ættmenna.Þetta fólk er alls ekki náskylt mér en þau eru eina fjölskyldan sem ég hef á svæðinu og þau hafa staðið sig vel í að bjóða mér með.
 
Ég lét þau vita fyrir stuttu að ég væri að flytja aftur heim og að ég myndi kveðja þau þessa páskana. Þegar ég mætti heim til Kathy, yngstu dóttur Bens, voru þar ekki bara þær systur og fjölskyldur þeirra heldur höfðu þau líka boðið Sig og Ginny, svo og systkinunum George og Vicky ásamt þeirra mökum. Þetta var því heilmikil veisla og mér þótti ákaflega vænt um að þau skyldu gera þetta fyrir mig. Ég fékk líka alveg að vita að ég væri heiðursgesturinn og fékk meira að segja fallegt kort sem allir skrifuðu undir. Ég sé þau ekki oft á ári því þau búa í klukkutíma fjarlægð, en ég á samt eftir að sakna þess að fara ekki í mat til þeirra reglulega, borða kalkún og styrkja ættarböndin.
 
Myndin hér var tekin af kvenpeningnum en því miður var Vicky farin því hún og John maðurinn hennar búa hinum megin við landamærin, í Bellingham, svo þau fóru fyrr heim.
 
 IMG_9703

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband