Enn um Breiðavíkurmálið

Ég ætlaði rétt að kíkja á Kastljósþáttinn frá því á mánudag áður en ég færi að sofa en eftir að hafa hlustað á alla umræðuna þar um Breiðavíkurmálið (og Shadow Parade sem eru alveg frábærir) datt ég algjörlega í þetta og horfði á alla Kastljósþættina í vikunni. Þetta mál er alveg hrikalegt og maður skilur bara ekki hvernig svona getur gerst. Hugsið ykkur líka þegar maður er að hneykslast á fólki í neyslu og vitleysu -  maður hefur ekki hugmynd um bakgrunn þess. Oft eru einmitt hræðileg lífreynsla eða erfitt uppeldi ástæða þess að fólk lendir á rangri braut í lífinu. Það er kannski ekki beinlínis afsökun í öllum tilfellum, en alla vega útskýring sem taka þarf til greina.

Fyrir nokkrum árum fór ég á veitingastað með kunningja mínum og konan sem þjónaði okkur var alveg ömurleg. Þessi kunningi minn leit vinalega á hana og sagði: Æ æ, hefur þetta verið erfiður dagur. Hún alveg bráðnaði við þetta og var miklu kurteisari eftir á. Ég hef æ síðan reynt að hugsa til þess að fólk sem er dónalegt, eða reitt, eða hreinlega afvegaleitt í lífinu, er það oft vegna þess að það hefur góða ástæðu til þess, en ekki vegna þess að það vill vera dónalegt, reitt eða afvegaleitt. En ég viðurkenni svo sem að stundum mistekst mér ætlunarverkið og pirrast eða hneykslast, eftir því hvor tilfinningin á frekar við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband