Mæðradagur

Ég vil byrja á því að óska öllum mæðrum til hamingju með daginn. Reyndar er ennþá 13. maí hjá mér en það er bara tæpur klukkutími í þann fjórtánda. Annars er ég orðin svo rugluð að ég veit ekki hvort mæðradagurinn er alls staðar 14. maí eða hvort það er bara hér í Kanada. Einhvers staðar sá ég á gamalli bloggsíðu þar sem fólk vísaði í mæðradaginn sem 12. maí. Mig vantar sárlega íslenskt dagatal svo ég geti séð hvenær merkilegir dagar eru heima. Vanalega sendir mamma mér dagatal en það gleymdist í ár. Ég er einna hrifnust af þessum litlu þríhyrndu dagatölum sem maður fær t.d. hjá Landsbankanum. En sem sagt, 14. maí er mæðradagur í Kanada.

14. maí er líka afmælisdagurinn hennar ömmu Gunnu. Hún var fædd 1915 og hefði því orðið 91 árs hefði hún lifað. Einn afmælisdaginn hennar eignaðist einhver læðan okkar kettlinga. Ég held það hafi kannski verið Skotta. Við ræddum um að setja bara borða á kettlingana og gefa svo ömmu þá í afmælisgjöf. Sú held ég að hafi orðið snarbrjáluð. Ekki það að henni hafi verið illa við ketti. En hún hefði líklega ekki viljað fá eina fimm, eða hversu margir sem þeir voru  nú í gotinu.

En sem sagt, í tilefni þess að amma hefði orðið níutíu og eins árs í dag (kominn 14. maí á Íslandi) verð ég að syngja fyrir hana. Guðrún Helga, ef þú sérð þetta, taktu undir:

You are my sunshine
My only sunshine
You make me happy
when skies are gray
You never know dear
How much I love you
Oh please don't take my sunshine away.

Og það þarf ekki að taka það fram að þetta á að syngja mjög illa. Þá sagði amma alltaf mæðulega: Æi stelpur mínar. Getiði ekki hætt þessu.  

Amma var svo sannarlega ekki hin týpíska amma. Maður gat ekki átt von á því að hún laumaði að manni gotteríi eða smápening. Almennt séð held ég að hún hafi ekkert verið sérlega mikið fyrir krakka. Þegar við vorum börn sóttum við miklu meira til afa. En þegar við eltumst breyttist þetta. Ömmu fannst ákaflega gaman að spjalla við okkur Guðrúnu Helgu þegar við vorum komnar í menntaskóla. Þá vorum við orðnar nógu þroskaðar til að hægt væri að eiga við okkur almennilegar samræður. Þegar hún var að lesa stórvirkið um Ragnheiði Brynjólfsdóttur og hann Daða endursagði hún söguna í smáatriðum. Það skipti engu þótt við reyndum að segja henni að við hefðum engan áhuga á Ragnheiði og Daða. Henni var alveg sama, henni fannst svo gaman að segja okkur frá þessu. Þetta virðist ganga í ættum. Kristbjörg langamma var víst svo minnug á sögur að ef fólk missti af útvarpssögunni fór það bara til langömmu og hún endursagði síðasta lestur. Amma sagði okkur frá Ragnheiði og mamma gerir allt sem hún getur svo hún fái að segja mér frá því sem gerist í Glæstum vonum. Ég reyni að segja henni að ég hafi engan áhuga en hún hefur erft frásagnargleði mömmu sinnar og ömmu og það er rétt svo ég sleppi með aðalatriðin. Og þið sjáið að ég hef erft þetta líka. Ég ætlaði bara að óska mömmu til hamingju með mæðradaginn og ömmu heitinni til hamingju með afmælið, og í staðinn byrja ég að tala um Ragnheiði og Daða. Ömmu þótti það ógurlega leiðinlegt þegar við Guðrún vitnuðum í Megas og sungum: Rangheiður biskupsdóttir brókar- var með -sótt. En hún erfði það ekki við okkur og í staðinn kenndi hún okkur klámvísur. "Ljósum sokkum kemur á, klæðadokkin hýr á brá..." Nei, þetta er ábyggilega ritskoðað. ég get ekki farið með klámvísu á vefnum. Þið verðið bara að trúa því að amma mín skuli hafa kennt mér klámvísur. Já, hún var ekki eins og flestar ömmur og það var alveg frábært að mörgu leyti. Ég átti eina svona fullkomna ömmu sem bakaði kökur, prjónaði, gaf mér nammi og brauð og eldaði handa mér uppáhaldsgrautinn minn þegar ég bað hana um það. Það var amma Stína. Amma Gunna gerði ekkert af þessu en hún gerði svo margt annað. Hún var fyndin og skemmtileg og gerði svo margt sem kom á óvart. Þegar ég hugsa um hana koma svo mörg fyndin atriði í hugann. Eins og þegar mamma var að taka myndir af okkur Guðrúnu í íslenska þjóðbúningnum og amma stóð fyrir aftan hana og kom okkur til að hlæja með því að reka út úr sér tennurnar og setja upp alls konar grettur. Á myndunum erum við skellihlæjandi og ég held að það sé engin þeirra alvarleg.

Hún sagði okkur líka margar sögur frá því hún var ung. Sumar þær sögur hafa orðið frægar í fjölskyldunni og flestir geta farið með þær orðréttar: "Á böllunum í gamla daga vorum við Snjóa systir alltaf fyrstar fram á gólfið að dansa. En svo urðu Snjóa og afi þinn svo full að við Árni urðum að fara með þau heim." 

Þegar hún hitti Offa, fyrrverandi kærastann hennar Guðrúnar Helgu, í fyrsta sinn, leit hún á hann, mældi hann svo út og sagði: "Þú ert feitur!" "Ég veit það" sagði Offi greyið. Hvað annað gat hann sagt. Amma var líklega búin að gleyma því að hún hafði farið í garnastyttingu. Eftir á spurði hún mig: "Heldurðu að hann sé farinn að fara uppá hana?" Amma þó, hvað heldurðu að ég hafi vitað um það. 

Já, þetta var hún amma mín.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband