Guði sé lof

Mikið er það huggandi að heyra að Sjálfstæðisflokkurinn skuli vera að bakka með það að stytta framhaldsskólann um eitt ár. Ég hef verið á móti því frá því ég heyrði fyrst af þessu en eftir að ég fór að kenna á háskólastigi í Kanada varð ég enn harðari í afstöðu minni. Hér byrja nemendur átján ára í háskóla og eru langt frá því að vera búnir að taka út þroskann. Fyrsta árinu, og hjá mörgum fyrstu tveimur árunum, er eytt í fyllerí og skemmtanahöld sem íslenskir krakkar taka vanalega út í menntaskóla. Það er alfrægt að nemendur í framhaldsnámi geta ekki verið á sömu stúdentagörðum og þeir sem eru á BA/BS stigi, vegna þess að það eru stöðugt drykkjulæti á vistum yngri nemenda, og hinir eldri vilja frið til þess að læra. Ég hef kennt fjórum árgöngum fyrsta árs nema í háskóla í Kanada og það var mjög áberandi hversu illa þeir voru undir það búnir að vera komnir í framhaldsskóla. Þetta voru átján ára grey sem ekki voru búin að ákveða hvað þau vildu læra, sem ekki voru búin að taka út nema brot þroskans og sem hreinlega voru á þeim aldri þar sem krakkar vilja fyst og fremst skemmt sér. Enda var það ekki oft sem allur hópurinn kom undirbúinn í tíma. Þar að auki má benda á að hér er BA/BS námið vanalega fjögur ár, og fyrsta árið fer í það að taka áfanga úr ýmsum greinum til þess að kynna sér hvað þau vilja nú læra. Þannig að  þegar til kemur eru þau aðeins ári yngri en íslensku ungmennin þegar þau útskrifast úr háskóla og sennilega með verra nám því þau hafa almennt færri einingar í aðalfagi og lærðu hvort eð er minna fyrstu tvö árin. 

Ég er alveg hörð á því að kerfið er betra heima á Íslandi. Þegar íslensk ungmenni byrja í háskólanum tvítug að aldri hafa þau tekið út mun meiri þroska en fyrsta árs nemar vestra (enda þroskast fólk mikið á milli átján og tuttugu ára), taka námið alvarlegra og fá þar af leiðandi miklu meira út úr háskólanáminu. 

Mér finnst allt í lagi að nemendur geti tekið menntaskólann á styttri tíma ef þeir eru tilbúnir til þess að leggja þannig vinnu á sig, enda held ég að þeir sem eru tilbúnir til að leggja harðar að sér til að klára menntó fyrr hafi sennilega þann aga sem þarf til þess að standa sig vel í háskóla, en það ætti ekki að vera gert að neinu keppnikefli fyrir hinn almenna nemanda, né ætti það að verða almenn breyting. Og hvað um það að grunnskólinn hafi lengst um tvö ár og framhaldsskólinn um eina önn? Það þýðir bara að við menntum börnin okkar betur. 


mbl.is Menntamálaráðherra: Stytting námstíma til stúdentsprófs ekki markmið í sjálfu sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband