Að heilsa á íslensku

Það er orðið langt síðan ég hef skrifað færslu en nú finnst mér þörf. Ég var að koma frá Bandaríkjunum þar sem ég var á ráðstefnu. Þetta var hin fínasta ferð, gagnleg og fræðandi og auk þess fékk ég tvo aukadaga í New York á leiðinni til baka og gat keypt jólagjafirnar ódýrt. En ráðstefnan og verslunin er ekki ástæða þess að ég skrifa heldur sú árátta Íslendinga að ávarpa alla á ensku.

Á flugvellinum á leið út var mér boðinn 'good morning' og það sama tók við þegar ég kom aftur heim í morgun. Í flugrútunni var mér einnig heilsað á ensku. Og það er ekki bara á flugvellinum sem þetta er svona. Síðsumars fór ég ásamt fleirum á veitingahús í Grindavík. Þar var mér heilsað á ensku og síðan var ég spurð 'Would you like to see the menu?' Aðeins fyrr í sumar var ég í Eymundsson í Austurstræti og keypti þar vídeóspólu - hún var á íslensku. Samt talaði starfsmaðurinn við mig á ensku. Ég svaraði honum á íslensku en hann hélt áfram að tala við mig á ensku. Ég hélt hann væri kannski útlendingur en nei, á milli þess sem hann afgreiddi mig - á ensku - spjallaði hann við samstarfskonu sína á íslensku. Enda drengurinn líklega alíslenskur.

Er það virkilega opinber stefna ferðaþjónustunnar á Íslandi að nota ensku þegar fólki er heilsað eða taka starfsmenn þetta upp hjá sjálfum sér? Hvað ef ég er Íslendingur sem ekki kann ensku? (Já þeir eru til.) Á ég þá ekki rétt á því að mér sé heilsað á mínu móðurmáli í mínu eigin landi? Er réttur útlendinganna - sem þó tala ekki allir ensku - meiri en Íslendingsins? Og hver er nákvæmlega ástæðan fyrir þessu? Nú er algjörlega ljóst að fólk veit nákvæmlega hvað þú ert að segja þegar þú býður því góðan dag, alveg sama hvaða tungumál þú notar. Ég prófaði þetta núna úti í Bandaríkjunum. Ég notaði íslensku til að heilsa og þakka fyrir mig og það skilaði sér alveg jafn vel og hefði ég sagt það sama á ensku. Ef þú gengur inn í rútu, bílstjórinn brosir, horfir í augun á þér og kinkar smávegis kolli um leið og hann segir eitthvað veistu að hann er að heilsa þér. Það er alveg sama hvernig orðin hljóma. Þess vegna myndi útlendingur á Íslandi skilja 'góðan daginn' jafnvel og hann skilur 'good morning'. Þar að auki er ekkert ólíklegt að útlendingur sem ferðast til Íslands hafi t.d. flett upp á netinu (eða í orðabók) hvernig á að heilsast á íslensku. Flestum útlendingum finnst meira að segja tilheyra ferðalaginu að nota kveðjur og jafnvel þakkarorð á máli þess lands sem þeir heimsækja. Og þetta virðast aðrar þjóðir skilja. Hvenær heyrið þið Frakka bjóða góðan daginn á ensku? Eða Spánverja? Alla vega hefur það verið mín reynsla þegar ég heimsæki þessi lönd að mér sé heilsað á þeirra máli. Ég heilsa meira að segja til baka á þeirra máli þótt ég kunni ekki spænsku og sé léleg í frönsku. Ég var líka í Kaupmannahöfn í vor og þar var mér alltaf heilsað á dönsku. Þetta gerir fólk þótt það kunni ensku og geti svo skipt yfir í hana þegar í ljós kemur að viðskiptavinurinn kann ekki meira í málinu en það að heilsa.

Mér finnst það notalegt þegar mér er heilsað á máli þess lands sem ég heimsæki. Ég held að flestum ferðamönnum finnist það líka. Ég held að þeir sem ósjálfrátt heilsa útlendingum á ensku (og þar með fjölmörgum Íslendingum líka) séu að ræna ferðamennina smá hluta af reynslu sinni og á sama tíma sýna þeir okkar fallega máli vanvirðingu.

Þetta er Ísland. Heilsum hvort öðru á íslensku.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stína mikið er ég sammála þér. Þetta er óþolandi og líka þegar útlendingar sem koma til Íslands kunna ekki ensku síðan fara íslendingar að tala við þá ensku í staðin fyrir að tala við þá á íslensku og kenna þeim hana. Skil ekki þetta ensku kjaftæði alltaf. Góður pistinn hjá þér.

Anna María (IP-tala skráð) 3.10.2012 kl. 17:19

2 identicon

Gott að bloggið þitt er vaknað af löngum dvala. Ég er alveg sammála þér...hef sjálf lent í því á Hveravöllum að landvörðurinn talaði við mig á ensku (enda ekki margir íslendingar sem tjalda einir þar) og hélt því áfram þótt ég svaraði alltaf á íslensku. En þetta með að heilsa útlendingum með góðan daginn...kannski hefur ferðamálabransinn ákveðið að heilsa á ensku eftir tilfelli eins og það sem kom fyrir systur mína í englandi: áður en hún kom að heimsækja mig kenndi ég samstarfsmanni mínum að segja góðan daginn, sem hann svo sagði stoltur þegar hann sá systur mína...sem stórmóðgaðist, setti um snúð og vildi engin fleiri orðaskipti eiga við manninn. Þegar við vorum orðnar tvær einar, kvartaði hún svo við mig yfir ókurteisi þessa ókunna manns sem leyfði sér að segja henni svo hreint og beint að "go on a diet"!!!! Kannski væri samt hægt að leysa þennan vanda með að heilsa "góðan dag"

Rut (IP-tala skráð) 3.10.2012 kl. 18:25

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Haha, 'go on a diet'.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 3.10.2012 kl. 21:03

4 identicon

5 stjörnur fyrir þetta.

Aðalsteinn Geirsson (IP-tala skráð) 4.10.2012 kl. 12:00

5 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk fyrir það.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 4.10.2012 kl. 12:29

6 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Sæl hér eða á ég að segja "good morning?"

Sjálfur hef ég lent í þessu hér á skerinu, hef unnið við þjónustustörf og býð góðan dag, kvöld á íslensku.

Það hef ég tamið mér gegnum þessi störf að bjóða fólki góðan dag á íslensku fyrst og fremst. Ef fólk hinsvegar skilur ekki það sem ég segi þá er líklega um útlendinga að ræða, þá kemur enska, eða annað til greina.

Maður verður reyndar hálf undrandi þegar manni er heilsað á erlendri tungu hér á landi ef maður fer í verslun. Fer stundum í pólska búð til að versla hér í Keflavík en þar er starfsfólkið af Pólskum uppruna, og býður að fyrra bragði góðan dag uppá íslensku. Maður verður ánægður að heyra það enda ekki oft sem það gerist núorðið.

Við Íslendingar þurfum að bæta okkar mál.

Kveðja

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 4.10.2012 kl. 13:35

7 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk fyrir þetta Ólafur. Gott að heyra að þú notar íslenskuna og skemmtilegt að heyra að Pólverjarnir gera það líka. Mér finnst alveg bráðnauðsynlegt að við verndum tunguna okkar og stundum grunar mig að þeir sem nota enskuna við öll tækifæri séu fyrst og fremst að sýna hversu góðir þeir séu að kunna ensku. Og þó er enskukunnátta okkar Íslendinga mjög oft ofmetin.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 4.10.2012 kl. 16:12

8 Smámynd: Jens Guð

  Núna eru útlendir ferðamenn á Íslandi árlega um 600 þúsund.  Á algengum ferðamannastöðum eru útlendingarnir mun fleiri en Íslendingar.  Starfsmaður á þeim stöðum hittir fleiri útlendinga en Íslendinga.  Þegar hann umgengst aðallega útlendinga er skiljanlegt að hann "stilli sig" inn á það dæmi.  

Jens Guð, 5.10.2012 kl. 22:34

9 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ekki sammála því að það sé skiljanlegt að þeir stilli sig inn á enskuna þótt þeir hitti fleiri útlendinga. Starfsmenn ferðaiðnaðarins í öðrum löndum sem ég hef hitt á mínum ferðalögum hitta líka miklu fleiri útlendinga en heimamenn en nota samt ekki enskuna sjálfkrafa. Þar að auki efa ég að starfsmenn Eymundsson í Reykjavík hitti svo miklu fleiri útlendinga en Íslendinga að það réttlæti enskunotkun. Þetta hefur aðrar rætur en þær að þeir séu bara búnir að stilla sig inn á ensku vegna fjölda útlendinga.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 6.10.2012 kl. 16:49

10 identicon

Eigum við bara ekki öll að tala ensku.Þurfum þá ekki að borgar fyrir dýrar bækur sem eru þýddar. Þar að auki verða fleiri útlendingar á Íslandi en íslendingar innan skamms , með þessu áframhaldi. Tölum bara öll ensku hvernig væri það ???????

Soffía (IP-tala skráð) 7.10.2012 kl. 01:11

11 identicon

Já, þetta er skrýtið. Við lentum í því í sumar að yfirgefa Húsavík með þá spurningu í kollinum hvort þar væri alls ekki töluð íslenska. Þeir sem við áttum samskipti við töluðu við okkur á ensku þennan dagpart sem við vorum þarna. En... ég held að ástæðan fyrir því hafi verið sú að við afgreiðslu á þessum stöðum sem við heimsóttum - hvalasafn og veitingahús -  voru ekki Íslendingar - enska var því sennilega nærtækasti kosturinn fyrir fólkið.

Þórunn Blöndal (IP-tala skráð) 7.10.2012 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband