Heimavinnandi húsmóðir í mánuð
4.2.2013 | 10:34
Allt í einu hef ég tíma til að blogga. Ég er heimavinnandi húsmóðir í einn mánuð. Kemur ekki til af góðu reyndar. Verkefninu sem ég var í lauk nú í lok janúar og ég fæ ekki nýja vinnu fyrir en í byrjun mars þannig að ég er atvinnulaus í febrúar.
Og hvað gerir maður þegar maður er atvinnulaus? Ja, maður byrjar daginn á því að skoða atvinnuauglýsingarnar - en það er ekkert nýtt komið inn síðan í gær. Sá reyndar eina auglýsingu um prófarkalestur en það er bara 50% staða og væntanlega ekki verið að leita að starfsmanni í einn mánuð. Ég mun kenna í þrjá mánuði, mars til maí þannig að það er takmarkað sem ég gæti þegið. En ég les þetta samt því maður veit aldrei hvað býðst, og svo er auðvitað hugsanlegt að eitthvað bjóðist sem ég get þegið eftir að kennslu lýkur í vor.
Annars er ég með heilan lista um það sem ég ætla að gera í atvinnuleysinu þennan mánuðinn:
- Lesa yfir allt efnið sem ég þarf að kenna þegar ég byrja að vinna í mars. Sumt hef ég lesið en þarf að rifja upp, annað mun ég lesa í fyrsta sinn.
- Þrífa íbúðina. Svona almennilega vorhreingerningu þótt ekki sé komið vor.
- Fara í leikfimi og koma mér í form. Ókei, ég er í raun í mjög góðu formi enda stunda ég nú þegar íþróttir. En ég þarf að lyfta. Ég finna bara hversu mikinn styrk ég hef misst í efri hluta líkamans eftir að ég hætti að klifra. WorldClass er hérna rétt hjá svo ég hugsa að ég fari þangað þennan mánuð sem ég er heima.
- Skrifa málfræði. Ég þarf að skrifa eitthvað og helst fá birt svo ég verði talin hæf ef einhvern tímann verður auglýst málfræðistaða við HÍ. Maður má ekki dragast aftur úr.
- Grúska í fornum fræðum. Ég er heilluð af sögu langafa míns og systur hans og nota oft frítímann í að stúdera líf þeirra. Þau voru ekki þekktar manneskjur og því lítið hægt að finna en hægt er að púsla ýmsu saman. Ég mun heimsækja Þjóðskjalasafnið aftur næstu daga.
- Elda hollan mat. Ég hef meiri tíma núna til að virkilega pæla í því hvað ég borða og hvernig á að elda hollan en góðan mat. Oft þegar maður vinnur mikið eru ákvarðanir teknar í flýti og keypt inn á hlaupum. Það ætti ekki að vera vandamál í febrúar.
Já, nú skal miklu komið í verk.
Athugasemdir
Gaman að sjá að þú ert farin að hamra inn bloggi aftur. Njóttu þess að vera í þessu mánaðarfríi, þú átt það inni eftir hlaupin úr skrifunum í vancouver í vinnuna heima og skrifin til hliðar! Það opnast svo alveg örugglega gluggi fyrir þig einhversstaðar þegar þú ert búin með MS reynsluna, það er alltaf pláss fyrir duglegt og klárt fólk eins og þig!
Rut (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 20:28
Kanada Kristín,ég spái því að þér verði boðið ábyrgðarstarf hjá nýrri ríkisstjórn í Sumar. Það vantar fólk einsog þig í stjórnsýsluna.
Númi (IP-tala skráð) 5.2.2013 kl. 01:03
Takk bæði tvö.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 8.2.2013 kl. 08:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.