Áskorun til fjölmiðla
9.4.2013 | 14:54
Á þeim skoðanakönnunum sem við höfum séð á undanförnum dögum er ljóst að gríðarlegur fjöldi manns er enn óákveðinn. Alls ekki skrítið miðað við allt og alla. Það hefur sjaldan verið jafn erfitt að gera upp hug sinn. Ég er til dæmis óákveðin í fyrsta sinn í Alþingiskosningum. Sumir eru óákveðnir af því að fjöldi flokka er orðinn svo mikill, sumir eru óákveðnir af því að þeir eru ekki vissir um hvort þeir eigi að treysta þeim sem bjóða bestu gylliboðin og aðrir eru óákveðnir af því að þeir hafa misst trúna á stjórnmálamönnum. Ástæðurnar eru að sjálfsögðu fleiri, en þessar ættu að duga í bili.
Við sem höfum þó enn fulla trú á lýðræðinu erum alltaf dugleg að hvetja hina óákveðnu til að kjósa nú samt og bendum á að það sé betra að skila auðu en að kjósa alls ekki því með því geturðu alla vega sent þau skilaboð að enginn kostanna sé boðlegur. Þú sendir sem sagt þau skilaboð að þér standi ekki á sama um það hver stjórnar landinu - og þú sýnir það greinilega með því að hafa fyrir því að fara á kjörstað - en að þér líki bara ekki það sem er í boði.
Mótrökin eru oft þau að svo lítið sé gert með auðu seðlana að skilaboðin komist í raun aldrei til réttra aðila. Og það er margt til í þessu. Hversu oft gerist það ekki að maður heyrir "auðir og ógildir seðlar, 20%", eða hvert sem hlutfallið nú er?
Það má ekki blanda saman auðum seðlum og ógildum. Alls ekki. Því þótt sumir ógildi seðla sína að ásettu ráði til þess eins að mótmæla (t.d. með því að skrifa vísur á þá) þá eru aðrir sem ógilda þá heimsku sinnar vegna (kjósa t.d. Sjálfstæðisflokkinn en strika svo Steingrím J. út). Við vitum nefnilega ekki alltaf hvað liggur að baki ógildingu seðlanna en við vitum hvað auðu seðlarnir þýða.
Því er það gífurlega mikilvægt að allir fjölmiðlar sem fjalla um kosningarnar þegar þar að kemur haldi þessum seðlum aðskildum. Ef 30% ákveða að skila auðu þá verðum við að fá að vita það og við verðum að fá umfjöllun um það. Þetta er rödd þeirra sem hafna öllum kostum og þeirra rödd á rétt á því að fá að heyrast rétt eins og raddir þeirra sem kjósa ákveðna flokka.
Athugasemdir
Það sem ég hef stundum velt fyrir mér er; hvaða áhrif hefur þessi rödd (þ.e. auðir seðlar) og hver er að hlusta?
H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 9.4.2013 kl. 16:43
Já, það eru verðugar spurningar. Forystumenn stjórnmálaflokka ættu auðvitað að taka þetta til sín ef auðir seðlar eru mjög margir en gera þeir það?
Kristín M. Jóhannsdóttir, 9.4.2013 kl. 17:18
Auðvitað telja auðir seðlar, en hvaða raunveruleg áhrif þeir hafa er umdeilanlegt.
Á Íslandi hefur ekki nema einu sinni, svo að ég muni, verið verulegur fjöldi auðra seðla.
Það var í forsetakosningunum 2004, þegar u.þ.b. 28.000 kjósendur mættu á kjörstað og skiluðu auðu.
Hafði það einhver áhrif? Auðvitað er erfitt að meta það, en þegar upp er staðið er mest freistandi að halda því fram að svo hafi ekki verið.
En ég er hins vegar sammála því, að það er meiri reisn yfir því að koma á kjörstað og skila auðu, en sitja heima.
G. Tómas Gunnarsson, 10.4.2013 kl. 06:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.