Vetrarfrí

Þessa vikuna er vetrarfrí, eða kannski réttara heldur lestrarfrí, í UBC. Þá fara allir 'undirgráðu' (undergrad) nemendurnir á fyllerí í Mexíkó eða öðrum sólarstöðum. Hef aldrei skilið hvernig fólk í skóla getur ferðast svona mikið. Ég held ég hafi aldrei farið til útlanda á meðan ég var á námslánum á sínum tíma, og varla neitt annað en til Akureyrar. Og þá fékk ég vanalega far með flutningabílunum því ég hafði ekki efni á að borga fyrir flug eða rútu. Núna get ég ferðast aðeins meira því ég á pínulítinn sjóð frá þeim árum sem ég vann. En þau ferðalög eru yfirleitt annað hvort til að fara á ráðstefnur, sem er mikilvægt fyrir námið, eða þá að fara heim og sjá fjölsyldun. Sem ég hef gert tvisvar á fjórunum árum.

Lestrarfríið mitt núna er einmitt það, lestur. Það sem ég hef gert í fríinu hingað til er: læra, klifra... Já, þá er það svona nokkurn veginn komið. En það er líka ágætt því ég þarf að vinna vel. Þar að auki skiptir ekki öllu hvort það er lestrarfrí eða ekki hjá mér því þessa önn er ég hvorki í tímum né að kenna, þannig að frídagar eru nokkurnveginn alveg eins og vinnudagur. Það sama má segja um laugardaga og sunnudaga. Allir eru þeir þannig að ég vinn þegar ég get og tek mér pásu þegar ég er þreytt. Annars fara alveg ótrúlega margir klukkutímar í það að ná nokkurra klukkutíma vinnu. Að skrifa ritgerð er ekki eins og að mála skip (sem ég gerði á hverju sumri í sjö ár). Maður skellir ekki inn átta tíma vinnu og fer svo heim og gerir það sem manni sýnist. Ef maður er ekki í skapi til þess að vinna þýðir líitð að sitja fyrir framan tölvuna og reyna að hugsa. Það einhvern veginn kemur ekkert af viti í hugann. Þess vegna þarf ég oft að dreifa vinnunni niður á daginn og með  því að vinna fram á kvöld næ ég kannski inn hluta af þeim tíma sem venjulegt fólk eyðir í vinnu á hverjum degi. En kannski á ég bara óvenju erfitt með að sitja við. Gallinn við að skrifa doktorsritgerð (og reyndar Masters ritgerð) er að maður er sinn eigin herra og enginn annar ýtir á mann. Tímatakmörkin eru langt í burtu (ég þarf að klára fyrir september 2009, það eru rúm tvö ár í viðbót) og virka því ekki sem nein pressa. Þannig að eina pressan á mig er sú sem ég set á mig sjálf, og það er ekki alltaf auðvelt. Hins vegar er ég á mjög góðu róli. Ég er töluvert á undan hinum á mínu ári (aðeins Marion er byrjuð að skrifa eins og ég, hin eru enn að ljúka öðrum verkum) og er meira að segja búin að ná sumum sem byrjuðu tveimur árum á undan mér. en af því að ég stend svona vel að vígi setja kennararnir ekki á  mig neina pressu. ég var búin að biðja þá um að sparka í rassinn á mér ef ég slægi slöku við en þeim virðist ekki þurfa þess - svo þetta er allt undir mér komið. 

En ég lofa ykkur þessu: Á þessum tíma á næsta ári ætla ég að vera búin að skrifa. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband