Loksins sigur
5.3.2007 | 04:22
Það var kominn tími til að liðið mitt sýndi almennilega takta á fótboltavellinum, enda orðið býsna langt síðan við unnum leik. Einhvern tímann fyrir jólin. Og nei, ég er hvorki að tala um Þór Akureyri, né Arsenal, heldur alvöruliðið mitt, þ.e. liðið sem ég spila sjálf með - Vancouver Presto. Við spilum í fjórðu deildhópur kvenna sem flestar eru á fertugsaldri (örfáar þar undir, örfáar þar yfir). Við höfum spilað býsna vel í vetur en vorum svo óheppnar að vera í mjög sterkum riðli þannig að þótt við höfum spilað mun betri bolta í vetur en við gerðum í fyrravetur, höfum við unnið miklu færri leiki. Sjálf hef ég ekki staðið mig nógu vel. Síðastliðin þrjú ár hef ég verið aðalmarkaskorarinn, skoraði næstum því í hverjum leik, en í vetur hef ég mikið verið lasin, auk þess að hafa verið meidd í nokkrar vikur og svo missti ég af þó nokkrum leikjum vegna þess að ég var á ráðstefnum. Og til að gera illt verra þá var ég oft látin spila vinstri framvörð í stað hægri, og einhverra hluta vegna finn ég mig aldrei í þeirri stöðu. En þetta eru auðvitað engar afsakanir. í dag náði ég loks að skora og reyndar býsna fallegt mark. Það reyndist eina mark leiksins þannig að ég hrökk í gang á réttum tíma.
Nú er bara að halda þessum takti og taka næsta leik líka. Sérstaklega vegna þess að við erum nú í úrslitakeppni þannig að ef við vinnum ekki um næstu helgi þá erum við komnar í frí þar til sumarvertíðin hefst í maí.
(Setti inn mynd frá því í fyrra. Finnst hún fyndin)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.