Um Starbucks
5.3.2007 | 17:47
Í síðustu viku voru liðin tuttugu ár frá því Starbucks opnaði fyrsta kaffihúsið sitt í Vancouver. Þetta var mjög mikilvægt skref fyrir keðjuna því þetta var fyrsta kaffihúsið sem opnað var utan Seattle og var talið að útkoman í Vancouver myndi segja fyrir um hvort þýddi að opna á öðrum stöðum í Norður Ameríku. Nú eru 87 Starbucks kaffihús í Vancouverborg, 729 í Kanada og 13,168 í öllum heiminum. Plön eru um að opna 40,000 ný hús á næstu tíu árunum.
Í síðustu viku ákvað ég að fara í langan göngutúr og labbaði heiman frá mér og ofan í bæ. Niðri í bæ labbaði ég um í svolítinn tíma áður en ég labbaði af stað heimleiðis á ný. Það tekur um einn og hálfan klukkutíma að labba niður í bæ frá mér, en ég var líklega heldur lengur á leiðinni því ég labbaði eftir ströndinni í stað þess að fara stystu leið. Þegar ég kom niður í Kitsilano hverfið sem er á milli Point Gray, þar sem ég bý, og miðbæjarins, sá ég fyrsta Starbucks kaffihúsið á leiðinni og áður en yfirlauk var ég búin að labba fram hjá tíu Starbucks stöðum - þar af fimm niðri í bæ (og ég labbaði ekki fram hjá öllum Starbucks í miðbænum. Á einum stað eru Starbucks staðir sínum hvorum megin við götuna. Það minnir mig á atriði úr Best in Show (ef þið eruð ekki búin að sjá þá mynd....horfa á hana). Hjón voru að lýsa því hvernig þau kynntust: Við sáumst fyrst á Starbucks. Ekki samt sama Starbucks. Nei, sko, ég var á einum Starbucks og hún var á öðrum Starbucks hinum megin ivð götuna.
Mörgum er illa við keðjur eins og Starbucks en eins og ég held ég hafi skrifað um áður hér á blogginu þá er mér sagt að kaffi í Norður Ameríku hafi verið ódrekkandi áður en Starbucks kom til. Og það er ennþá þannig að á mörgum veitingastöðum er kaffið svo lapþunnt að það er ódrekkandi. Ég sá skrif Íslendings nokkurs sem lýsti því yfir að fyrir komu Starbucks á markaðinn hafi eina drekkandi kaffið í landinu verið það sem Vestur Íslendingar brugguðu á heimilum sínum. Þannig að þú það sé gott að styrkja litla manninn gegn stóru keðjunum þá er ekki alltaf hægt að vera á móti þeim stóru. Ekki þegar þeir breyta einhverju til hins góða.
Annars verð ég að minnast á Simpsons þáttinn þar sem Simpson fjölskyldan fór í Kringluna og á meðan þau voru þar opnuðu stanslaust nýir Starbucks staðir þannig að þegar þau fóru var eingöngu Starbucks í húsnæðinu.
Athugasemdir
Starbucks hefur margoft bjargað kaffilífi mínu í útlöndum, bæði í USA og GB. Fór á fyrsta Starbucks-staðinn í Seattle árið 2002 í pílagrímsferð og heldurðu að Bill Clinton hafi ekki verið þarna líka ... daginn eftir! Ég á íslenska vinkonu sem býr rétt hjá Seattle, stutt fyrir hana að skreppa til Kanada.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 5.3.2007 kl. 18:07
Stundum dreymir mig um að opna Starbucks á Íslandi. Ætti kannski að fá Gurrí í lið með mér? Gangi þér vel með doktorsritgerðina (mín er ókláruð - í nokkur ár - en pappírunum snyrtilega raðað í hvítar og sakleysislegar möppur)..... og bestu kveðjur!
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 10.3.2007 kl. 17:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.