Hvort bloggað er um fréttir eða persónulega hluti!
6.3.2007 | 19:53
Bloggið er svolítið eins og rússibani hjá manni...eða veðrið hæðir og lægðir. Ekki bara hvort maður bloggar eða ekki, heldur líka um hvað maður bloggar. Undanfarnar vikur hafði ég bloggað mikið um það sem ég las í fréttum, hvort heldur var á Mogganum eða kanadísku blöðunum, en nú síðustu daga hef ég ekki gert mikið af því. Það er annars vegar vegna þess að ég hef reynt að eyða ekki miklum tíma í það að lesa Moggann eða moggabloggin, því ég á að vera að skrifa doktorsritgerðina mína. Hins vegar er það vegna þess að það hefur ekki verið mjög margt í fréttum að undanförnu sem mig hefur langað að blogga um og ég vil ekki blogga um hluti bara til að blogga. Ég vil eingöngu blogga um þá ef þeir hreyfa eitthvað við mér.
Það hafa reyndar komið upp nokkur mál sem eru athyglisverð að undanförnu. Eitt þeirra t.d. gengur út á að lítilli stelpu í Quebec var bannað að spila á fótboltamóti því hún er múslimi og þarf því að vera með hijab (slæðu) um höfuðið. Dómari úrskurðaði það sem hættulegan (og óþarfan) útbúnað og ákvörðun hans var studd af Alþjóða knattspyrnusambandinu. Stelpunni var beinlínis sagt að hún yrði að velja á milli trúar og fótboltaiðkunar. Reyndar var tekið fram að dómarar hefðu nokkuð svigrúm í þessum málum og í ljós kom við athugun að það eru fyrst og fremst dómararnir í Quebec sem eru svona stífir. Ég veit til dæmis af eigin reynslu að ég spila alltaf með húfu og vettlinga ef kalt er úti og mér hefur aldrei verið bannað það. Reyndar er munurinn á hijab og húfu sá að hijab fer einnig í kringum hálsinn, en það er ábyggilega hægt að binda þetta þannig að engin hætta sé á að neinn rífi í útbúnaðinn og kyrki hana (sem ég geri ráð fyrir að liggi að baki þessu, nema það séu bara fordómar)
Hér koma hlekkir á þessa frétt: http://www.cbc.ca/canada/ottawa/story/2007/02/25/hijab-soccer.html
En aftur að fyrra máli. Ég var að segja að ég hef lítið bloggað um fréttir að undanförnu. Í staðinn hef ég bloggað meira um hvað ég hef verið að gera (spila fótbolta, göngutúr niður í bæ, o.s.frv.). Það hefur næstum enginn áhuga á að lesa slík blogg og ég sé hvernig heimsóknum fækkar um mörg hundruð prósent ef ég skrifa um hluti sem ekki eru fréttatengdir. En stundum eru það einmitt þessir hlutir sem ég vil skrifa um. Nú langar mig til dæmis að minnast á að ég hef verið býsna dugleg að klifra að undanförnu, því þótt það taki tíma frá náminu þá finnst mér ég læra meira og geta einbeitt mér betur ef ég stunda íþróttir. Og klifrið er alveg súper því maður styrkir líkama og sál. Ég hef líka staðið mig býsna vel að undanförnu. Hef verið að klifra meira í hærri skala. Í gær klifraði ég t.d. enga leið undir 5.10a og klifraði meira að segja eina 5.11a, auk 5.10d sem ég náði að klifra hreint. Býsna hreint ánægð með mig.
Við vorum þrjár saman í gær (Laura kom með okkur Marion) svo ég greip myndavélina með mér þar sem við vorum með aukamanneskju sem gæti tekið myndir. Set inn tvær myndir af mér að klifra 5.10c.
Athugasemdir
Þetta er áhugaverð frétt (líka gaman að heyra hversdagssögur) um stúlkuna sem fékk ekki að spila fótbolta. Áttu nokkuð einhverja vefslóð á frétt um þetta?
Pétur Björgvin, 7.3.2007 kl. 09:23
Hér geturðu lesið meira um þetta:
http://www.cbc.ca/canada/montreal/story/2007/02/27/qc-soccerhijab20070227.html?ref=rss
http://www.canada.com/montrealgazette/news/montreal/story.html?id=83f54850-a76c-45f9-9fd1-128a1ed390b5
Kristín M. Jóhannsdóttir, 7.3.2007 kl. 16:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.