Kanavitleysingarnir
10.3.2007 | 18:01
Mikið eru Bandaríkjamenn alltaf vitlausir. Í hvert skipti sem ég sest niður og les blaðið á morgnana les ég einhverjar fréttir sem bera vitni ofsækisbrjálæðis þeirra, mikilmennskubrjálæðis, tvískinnungs... Ég gæti haldið svona áfram.
Í blaðinu í morgun var lítil frétt um það að Bandaríkjamenn telja að þeir þurfi að fylgjast betur með innflytjendaeftirlitinu í Kanada því að það sé alls ekki nógu gott. Kanadamenn séu að sjálfsögðu hluti af Breska samveldinu og vegna þess hleypi þeir inní landið fólki frá Bretlandi þar sem búa margir hryðjuverkamenn. Sagði í fréttinni að Bandaríkjamenn þyrftu í minnsta lagi að vera svolítið taugastrekktir yfir því hversu lítið eftirlit sé í Kanada. Hugsanlega þurfi því að herða mjög landamæraeftirlit milli landanna. Þetta er ekki nýr söngur hjá Könunum. Eftir 11. sept. voru þeir vissir um að hryðjuverkamennirnir hafi flestir komið í gegnum Kanada. Í raun kom að í mesta lagi einn flaug inn í landið í gengum Kanada, hinir bjuggu nú flestir í Bandaríkjunum. Einhvern veginn kemur allt slæmt að utan, og helst héðan að norðan. Ég veit ekki nákvæmlega hvaðan þessi illskiljanlega hugmynd Bandaríkjamanna um Kanada kemur.
Fyrir um þremur árum kom upp tilfelli kúariðu í Alberta í Kanada og Bandaríkjamenn lokuðu landamærunum umsvifalaust fyrir öllum viðskiptum með kjöt. Blöðin syðra voru með stórar fyrirsagnir um kanadískt kjöt. Ég held að ekkert blaðanna hafi sagt frá þeirri staðreynd að viðkomandi kýr hafði verið keypt frá Bandaríkjunum innan við ári áður en riðan fannst í henni. Líkurnar á því að riðan hafi komið í kúna sunnan við landamærin voru því rétt eins miklar. En þetta breytti ekki viðskiptabanninu sem hélst í marga máuði, ef ekki ár, þar á eftir.
Önnur grein sem ég las í blaðinu í morgun, ekki síður skemmtileg, var um Newt Gingrich, einn kandidat Repúblikana til forsetaembættisins. Hann var sá sem stóð fremstur í fylkingu Repúblikana þegar þeir réðust sem harkalegast gegn Bill Clinton vegna Monicu Lewinsky málsins. Nú hefur Gingrich játað að hafa verið að halda fram hjá konunni sinni einmitt þegar hann barðist sem harðast gegn Clinton fyrir það sama. Hann síðar skildi við konuna sína og giftist viðhaldinu. Sú nýja er reyndar þriðja konan hans því hann fór að halda við konu númer tvö þegar hann var enn giftur konu eitt. Skildi svo við þá konu þegar hún lá á sjúkrahúsi með krabba. Skemmtilegur náungi Gingrich. Og greinilega fullur heilinda. Ef hann verður forsetaefni Repúblikana þá ætti leikurinn að vera léttur fyrir Hillary/Obama.
Athugasemdir
Mér fannst afar merkilegt að sjá tölurnar um að byssueign Bandaríkjamanna væri svipuð og Kanadabúa ... en bara miklu, MIKLU meira um morð og ofbeldisglæpi í fyrrnefnda landinu. Það er eitthvað mjög mikið að í bandarísku þjóðarsálinni ... erfitt samt að segja þetta, ég hef verið mjög hrifin í heimsóknum mínum til USA ... af svo mörgu, fólkinu sem ég hef kynnst þarna og öðru ...
Það er vissulega ýmislegt að okkur ... mér finnst ekki eðlilegt að við hleypum unglingunum okkar eftirlitslausum á útihátíðir þar sem við vitum að þeir drekka sig margir útúrdrukkna. Hér ríkir mikið agaleysi.
Ég hlæ mig alltaf máttlausa yfir South Park þar sem ríkir stríð milli USA og Kanada. Það er bara fyndið!!!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 10.3.2007 kl. 18:18
Og maður fer strax að hugsa um Michael Moore ...
Því miður hef ég enga trú á að Bandaríkjamenn séu tilbúnir í konu eða svartan karl sem forseta. Þú getur þó róið að því öllum árum í allri þessari nálægð, Stína, humm?
Berglind Steinsdóttir, 10.3.2007 kl. 18:21
Já, mikið er maður búinn að velta fyrir sér tvískinnungi og öðrum meinum bandarísku þjóðarsálarinnar. Ég hef ekki komizt að niðurstöðu fremur en aðrir. Horfi á og flylgist með Michael Moore, jamm...margt umhugsunarvert þar. Þrátt fyrir allt og allt, hefur mér hvergi liðið betur en einmitt hjá þessari furðulegu þjóð. Ég var reyndar í vernduðu háskólaumhverfi í mjög "góðu" fylki, Colorado. En....en.... (efni í langa færslu, geymi til betri...) Kveðjur!
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 10.3.2007 kl. 22:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.