Ég og He-Man
18.3.2007 | 23:07
Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég á bloggið eitthvað um það hversu mikil kvikmyndaborg Vancouver er og hvernig maður rekst alltaf af og til á þekkt andlit úti á götu. Það sem kom þeim bollaleggingum af stað í það skiptið var það að ég hafði verið að hlaupa niðri á Spanish Banks ströndinni og sá þá leikarann Garry Chalk þar sem hann sat á spjalli við einhvern kunningja sinn. Ég var mjög ánægð með þetta enda er ég hrifin af herra Chalk. Hafði alltaf gaman af honum í Cold Squad og sé honum af og til bregða fyrir í ýmsum kvimyndum og sjónvarpsþáttum, sérstaklega þeim sem eru kvikmyndaðir hér í Vancouver. Fólki til glöggvunar set ég hér inn mynd af honum í hlutverki Colonol Chekov í þáttunum Stargate SG1. Reyndar er má einnig geta þess að hann var sjálfur He-Man, master of the universe, í þáttunum sem gerðir voru í kringum 1990. Ég man að Sverrir, bróðursonur minn, var mikill He-man aðdáandi þegar hann var lítill. Man reyndar ekki hvort var farið að döbba barnaefni þá en ef svo var þá hefur maður víst aldrei heyrt í Garry Chalk á þeim árum.
Alla vega, ástæðan fyrir því að ég minnist á þetta aftur núna er ekki það að ég sé enn að velta mér uppúr því að hafa séð hann á ströndinni fyrir nokkrum vikum heldur vegna þess að ég rakst á hann aftur í dag. Ég var að koma heim eftir fótboltaleik og af því veðrið var svo yndislegt ákvað ég að labba heim eftir ströndinni og njóta veðursins aðeins. Labbaði fyrst eftir Jericho strönd og síðan yfir á Spanish Banks. Þegar ég fór að nálgast Sasamat, sem er gatan sem liggur frá ströndinni og að húsinu mínu sá ég kunnuglegan mann sitja á bekk og njóta sólarinnar. Gat séð langt frá að þetta var enginn annar en herra Chalk sjálfur. Hann var sportlegur í gallabuxum og svörtum jakka með dökk sólgleraugu en það var vel sjáanlegt að hárið hefur bæði þynnst meir og gránað og ýstran heldur aukist. Mig dauðlangaði að spjalla við hann en gerði það ekki. Bæði vegna þess að maður á að gefa fólki frið, en kannski aðallega vegna þess að ég hreinlega þorði það ekki. Allt of feimin.
Ef ég rekst á hann aftur, sem er ekkert ólíklegt því við virðumst álíka hrifin af Spanish Banks, þá verð ég að fara til hans og segja: Við verðum að hætta að hittast svona Mr. Chalk. Fólk er búið að komast að þessu með hundinn."
Reyndar benti pabbi mér á að það er smá möguleiki á að Garry Chalk þekki ekki Ladda og Jón Spæjó. Það þykir mér nú ekki sennilegt!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.