Af undanförnum dögum

Ottawa 

Ókei, það er orðið allt of langt síðan ég skrifaði. Það er að hluta til vegna þess að ég fór til Toronto í viku - á ráðstefnu - en ég hafði svosem aðgang að pósti á meðan ég var þar svo ég hefði getað fært inn reglulega. En einhvern veginn hefur svo margt gerst að í stað þess að skrifa á fullu um það allt endaði ég á því að skrifa ekkert.

Öfugt við bækur sem svona oftast nær byrja  á því sem fyrst gerðist ætla ég að rekja mig svona nokkurn veginn afturá bak. Ekki þannig að frá öllu sé sagt í öfugri röð en svona í megindráttum.

Sumarið mitt átti að vera afslöppunarsumar með svona þriggja til fjögurra tíma vinnu á dag (að ritgerðinni) og að öðru leyti ætlaði ég að dunda mér á ströndinni, fara í langa göngutúra o.s.frv. En þess í stað verður þetta vinnusumar. Á mánudaginn var hringt í mig og ég beðin um að koma til Ottawa og kenna íslensku í sumar. Nemendurnir verða verðandi sendiherra Kanada á Íslandi og eiginmaður (eða eiginkona - veit það ekki fyrir víst). Ég ætlaði ekki að gera þetta því þetta eyðileggur alveg afslöppunina, en kostirnir eru:

1. Ég hef aldrei komið til Ottawa
2. Það eru aðeins tveir tímar til Montreal og ég hef heldur aldrei komið þangað
3. Hver veit nema að ég fái góð sambönd
4. Peningar
5. Aukin reynsla
6. Nýtt fólk og ný ævintýri

Gallar:

1. Ég mun augljóslega ekki vinna mikið að ritgerðinni minni
2. Þekki engan þarna
3. Engir klifurfélagar, og þar að auki þyrfti ég að borga aftur ef ég færi í klifursal þarna (er með árskort hér)
4. Get ekki spilað lengur með fótoltaliðinu mínu
5. Ottawa er ekki við sjóinn, þar af leiðir, engin strönd.

En ég hef sem sagt ákveðið að skella mér og undirbúningstíminn er stuttur - ég flýg á mánudaginn. Seg ykkur meira frá þessu síðar

 

Toronto

Toronto ferðin heppnaðist vel. Ég flutti tvo fyrirlestra og gekk vel í bæði skipti. Ég kynntist ekki mörgu nýju fólki en styrkti böndin við fólk sem ég hef hitt áður á þessum ráðstefnum. Skandinavíufélagið var aftur með partý heima hjá Börje (finnskukennara í Toronto - við fórum þangað líka þegar ráðstefnan var síðast í Toronto) sem á hús við Simcoe vatn. Hann er auðvitað með gufu í litlu húsi niður við vatnið. Alvöru Finni. Eftir að ráðstefnunni lauk fór ég niður í miðborgina (York háskóli er í norðurhluta borgarinnar, um það bil klukkutíma frá miðborginni), borðaði hádegisverð með Brian vini mínum, síðan gengum við um í klukkutíma eða svo og þá þurfti ég að halda út á flugvöll. Toronto er ekkert sérlega skemmtileg borg. Ég myndi flytja þangað ef ég fengi vinnu en ég er ekkert sérlega spennt fyrir því að vera þar. 

 

Slysið

Ég fékk vondar fréttir að heiman þegar ég var í Toronto. Ég var að lesa moggann á netinu og sá þá að það hefði kviknað í Akureyrinni og tveir sjómenn farist. Haukur bróðir er á Akureyrinni og ég gat varla andað. Ég rauk út af fundinum sem ég var á (já, ég var að skoða tölvupóst á meðan ég var á fundi - það var verið að ræða eitthvað leiðinlegt) og hringdi heim. Enginn svaraði hjá mömmu og pabba, sem var skrítið því klukkan var býsna margt heima...nei bíddu, kannski ekki svo margt. Toronto er þremur tímum nær Íslandi en Vancouver er. Alla vega, ég hélt að klukkan væri orðin svo margt og þau ekki heima. Það auk á áhyggjurnar. Sem betur fer náði ég á Gunna sem gat sagt mér að það væri í lagi með Hauk. Mér létti mikið en eins og Gunni sagði, þá þýðir þetta bara það að einhver önnur fjölskylda hafði misst ástvin. Þetta var svo hræðilegt. Ég veit eiginlega ekkert ennþá. En svona er alltaf skelfilegt. Bruni er alltaf hræðilegur en úti á sjó. Þar er ekki hægt að hlaupa út úr húsinu og horfa á eldinn taka yfir. Það verður að slökkva. Það er ekki um annað að ræða. Mér skilst að sjómennirnir hafi staðið sig frábærlega við að ná tökum á eldinum en það var hörmulegt að hann náði fyrst tveimur mannslífum. Hugur minn er með fjölskyldum mannanna tveggja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband