Skunkar og bruni

Í kvöld labbaði ég niður tíundu götu að 10-11 búð til þess að kaupa dagskort fyrir Whistler svæðið. Ég ætla á skíði á morgun og það er ódýrara að kaupa dagskort í Vancouver því borgin niðurgreiðir kortin fyrir íbúa sína. Þau eru ekki niðurgreidd neins staðar annars staðar og því er dýrara að  kaupa kortið á svæðinu.

Þetta varð nokkuð athyglisverður göngutúr. Þótt þetta sé ekki mjög langt, um hálftími hvora leið náði ég að verða á vegi þriggja skunka. Og tvisvar sinnum var ég óþægilega nærri þessum illa lyktandi dýrum. Í fyrra skiptið var brotin pera í einum ljósastaur og því nærri svartamyrkur á um 60 metra svæði. Eina ljósið sem sjást var frá stjörnunum og frá nærliggjandi húsum. Ég sá því ekki skunkinn fyrr en hann var aðeins í nokkra metra fjarlægð frá mér. Ég hraðaði för minni en hljóp ekki því ég vildi ekki styggja hann. Næsti skunkur var í garði á upplýstu húsi svo ég sá hann í tæka tíð og labbaði eftir götunni á meðan ég fór framhjá. Sá þriðji olli mér næstum hjartaáfalli. Hann var inni í garði og kom út úr runna beint fyrir framan mig. Aðeins um metri var á milli okkar og ég sá rassgatið á helvítinu vel. Hjartað sökk niður í buxur og ég hélt hann ætlaði að spreyja mig. En sem betur fer sá hann mig ekki sem ógn og lét það vera að gusa á mig. Sem betur fer, mér þykir vænt um fötin sem ég var í og hefði ekki viljað henda þeim. Þið sem hafið fundið lyktina af skunki vitið hins vegar að fötum er ekki bjargað ef maður lendir í að vera spreyjaður. Ég hef heyrt að ekkert dugi. Og hárið maður. Hvað ætli maður þurfi að sápa það oft til að ná lyktinni úr? Skunklykt er virkilega með ógeðslegri fýlum sem ég hef nokkurn tímann fundið. Einu sinni ældi ég næstum því vegna þess að svo sterk skunklykt kom inn um svefnherbergisgluggann. Þegar ég bjó í kjallara þurfti ég að loka glugganum oft í viku vegna þess að skunkur var fyrir utan. Jakk. Þvílíkur viðbjóður.

Annað athyglisvert gerðist á leiðinni. Ja, gerðist ekki beint. Ég gekk framhjá hárgreiðslustofunni minni og sá að þar var búið að loka og á hurðinni var skilti sem á stóð að lokað væri vegna bruna. Ég mundi ekki eftir neinum bruna en leit svo á lóðina við hliðina þar sem átti að standa hús. Þar var bara spýtnabrak. ég mundi að ég hafði séð þetta fyrir nokkrum dögum en það er búið að rífa svö mörg hús á svæðinu á undanförnum þremur árum að ég hafði ekki hugsað mikið um það. Þegar ég kom heim leitaði ég á netinu að fréttum af bruna í hverfinu og í ljós kom að fyrir akkúrat mánuði var stórbruni þar sem þrjár verslanir brunnu og Éliane hárgreiðslustofan varð fyrir verulegum skemmdum. FYRIR MÁNUÐI!!! Hvar var ég? Hvers vegna tók ég ekki eftir þessu? Þetta er ekki svo langt frá þar sem ég bý. Og ég hef mörgum sinnum farið þarna framhjá í strætó síðan þá. Og ég sem les meira að segja blöðin á morgnana. En þetta fór alveg fram hjá mér. Ég þarf greinilega að finna nýja hárgreiðslustofu þegar ég neyðist til að láta klippa mig. Ég reyni að láta líða eins langt á milli og hægt er til að spara peninga.

En nú ætla ég að fara að sofa því ég þarf að vakna snemma til að komast til Whistler á þolanlegum tíma. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband