Skíðaferð og súkkulaði

Í gær fór ég á skíði í Whistler. Veðrið var yndislegt og það var frábært að skíða þarna uppfrá. Whistler svæðið er mjög skemmtilegt og nóg af brekkum. Það voru ekki einu sinni svo margir þarna að maður þurfti aldrei að bíða lengi eftir lyftunum. Við fórum meðal annars yfir á nýjasta svæðið sem opnaði núna í vetur og þar voru býsna fáir þannig að við gátum rennt okkur beint í lyftuna. Helsti gallinn var að það er búið að vera of hlýtt undanfarið þannig að snjórinn var nokkuð blautur, sérstaklega í neðri brekkunum. 

Í morgun voru ekki margir vöðvar í líkamanum sem voru ekki sárir. Bakið að drepa mig, bakvöðvarnir í lærunum sárir og meira að segja vöðvar í brjóstkassanum sem létu af sér vita. Ég hef skakklappast um í dag án þess að geta rétt almennilega úr mér. Svona er það þegar maður kemst sjaldan á skíði - þá er líkaminn ekki tilbúinn.

Átti annars góðan páskadag. Þvældist um á náttfötunum fram að hádegi, las blaðið, horfði á vídeó, slappaði almennt af. Verslaði í matinn (hér eru matvörubúðir opnar flesta hátíðardaga). Um fjögur leytið fór ég til Rosemary og Doug í mat og borðaði hjá þeim grillað svínakjöt. Það var mjög gott. Kom heim um hálfníu og talaði við Martin í rúman klukkutíma. Sem sagt, afslöppunarhelgi.  Það eina sem vantaði var NóaSiríus páskaegg. Fékk ekkert slíkt í ár. Borðaði Purdy's egg en þótt það sé gott þá er það ekki eins og að borða ekta íslenskt páskaegg með málshætti og nammi innan í. Verð sennilega að plata mömmu til að senda mér egg á næsta ári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband