Stríð og friður
9.4.2007 | 17:26
Í dag halda Kanadamenn upp á að 90 ár eru liðin frá baráttunni við Vimy Ridge í Frakklandi þar sem fjórar herdeildir kanadíska hersins gersigruðu Þjóðverja. Þessi bardagi er talinn stærsti sigur Kanada í stríði og margir telja hann marka upphaf Kanada sem þjóðar. Þessi hátíðahöld koma degi eftir að sex kanadískir hermenn létust í Kandahar í Afganistan og 51 kanadískur hermaður hefur nú látist síðan stríðið hófst þar fyrir fimm árum. Það er kannski ekki hár tollur í stríði en hermennirnir eru þarna sem friðargæsluliðar og Kanadamenn eru almennt á móti því að halda herliði í landinu. Almenningur vill herdeildirnar heim og ekki sjá fleiri kanadísk mannslíf tekin í baráttu sem kemur landinu ekkert við.
Ég á sjálf mjög erfitt með að skilja allt sem viðkemur hernaði. Kannski er það afleiðing þess að vera alin upp í herlausu landi þar sem enginn hefur ógnað okkur í hundruði ára. Ég á ekki afa eða langafa sem börðust fyrir Ísland og enginn í minni fjölskyldu hefur fallið fyrir byssu. Fólk hér hefur beinni tengsl við stríð og flestir eiga ættingja sem börðust í annarri hvorri heimstyrjöldinni. Það hefur því frekari ástæðu til þess að láta sig slíkt varða. En samt sem áður hafa Kanadamenn nokkrar áhyggur af því að fólk er farið að gleyma. Þeir sem börðust í fyrri heimstyrjöldinni eru flestir dánir og börnin þeirra sem börðust í síðari heimstyrjöldinni eru yfirleitt komin yfir áttrætt. Ungt fólk í dag hefur lítinn áhuga á styrjöldunum og nýleg könnun sýndi að aðeins rúmlegur helmingur Kanadmanna gat nefnt baráttuna við Vimy Ridge sem mikilvægustu orrustu kanadíska hersins. Aðeins um fjórðungur gat nefnt helstu hetju þeirrar baráttu. Af því að ég hef almennt áhuga á sögu skil ég af hverju fólk hefur áhyggjur af því að þessi saga gleymist og ég er viss um að ef Ísland hefði barist í styrjöld þá hefði ég meiri áhuga á einstökum baráttum. En almennt séð verð ég að viðurkenna að fátt sem styrjöldum kemur heillar mig eða vekur mér áhuga. Kannski vegna þess að fæst stríð er hægt að réttlæta. Það þarf ekki nema að nefna nýjustu dæmin í Afganistan og Írak.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.