Tap í leik tvö

Í kvöld var annar leikurinn í viðureign Vancouver Canucks og Dallas Stars og var nokkra þreytu að sjá á mönnum. Canucks gerðu tvisvar sinnum mistök í upphafi leikhluta (upphafi fyrsta og annars hluta) og úrslitin urðu 2-0 fyrir Dallas. Staðan er því 1-1 eftir tvo leiki.

Það hlýtur að hafa verið nokkur blóðtaka fyrir Canucks að missa þrjá menn meidda eftir síðasta leik en Alain Vigneault, aðalþjálfari Canucks, sagði að tapið hefði ekkert með það að gera að þrjá leikmenn vantaði. Hann sagði að þeir hefðu hreinlega ekki spilað nógu vel. Vigneault þessi er annars athyglisverður náungi. Hann er frá Gatineau í Quebec, þar sem Martin býr, og þjálfaði Montreal Canadiens í ein þrjú ár. Í fyrra tók hann við þjálfun Manitoba Moose í AHL deildinni en var síðan kallaður til Vancouver Canucks nú í haust. Hann hefur staðið sig alveg ótrúlega vel með liðið í vetur. Í fyrra komust Canucks ekki einu sinni í útsláttakeppnina en nú í vetur unnu þeir vesturdeildarriðilinn. Það verður gaman að sjá hvort Vigneault kemst lengra með Canucks en hann gerði með Montreal Canadiens en besti árangur hans þar var að falla út í átta liða úrslitum.


Manitoba Moose er nokkurs konar þjálfunarlið fyrir Canucks. Þeir leikmenn Canucks sem ekki eru alveg nógu góðir til að spila í NHL deildinni spila með Moose einni deild neðar. Ef þeir verða nógu góðir til að spila í hæstu deild eru þeir síðan sóttir til Manitoba og fá tækifæri með Canucks. Eftir að þrír leikmenn Manitoba meiddust í síðasta leik urðu Canucks að sækja danskan leikmann til Manitoba, sem í kvöld spilaði sinn fyrsta leik í NHL deildinni (einhver sagði að hann væri fyrsti Daninn í NHL en ég veit ekki hvort það er rétt). Það hýtur að hafa verið stressandi fyrir hann. Þetta er auðvitað  mjög gott kerfi fyrir Canucks því varamennirnir þeirra spila alvöru leiki í hverri viku með Moose. En þetta er ekki sérlega gott fyrir Winnipeg því þetta þýðir vanalega að ef einhver leikmaður verður mjög góður þá er hann vanalega kallaður upp um deild. Sama gerist með þjálfara. Vigneault stóð sig vel með Manitoba í fyrra og að launum fékk hann stöðuhækkun og tók við þjálfun Canucks en Manitoba missti góðan þjálfara. Þegar ég bjó í Winnipeg fannst mér þetta einstaklega skítt að allir góðu leikmennirnir væru kallaðir í burtu.

En nú er að bíða þar til á sunnudaginn og sjá hvernig næsti leikur fer. Við getum ekki látið bölvaða kúrekana frá Dallas vinna þetta. 

Á morgun spila senetorarnir í Ottawa við Pittsburg mörgæsirnar (takk Auður) og það er vonandi að þeir taki leikinn eins létt og í fyrrakvöld. Við getum ekki látið þessa Bandaríkjamenn vaða yfir okkur. Þriðja kanadíska liðið í úrslitunum, Calgary, virðist vera á heldur erfiðara róli og þeir skíttöpuðu fyrsta leiknum. Vonandi ná þeir sér á strik.

Hvernig stendur annars á því að mogginn skrifar ekkert um hokkí? Þeir skrifa um NBA körfuboltann sem er miklu leiðinlegri íþrótt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband