17. júní
18.6.2006 | 04:00
Klukkuna vantar núna fimm mínútur í tólf á miðnætti að kvöldi sautjánda júní og þjóðhátíðardagurinn er næstum liðinn. Heima á Íslandi er hann auðvitað gærdagurinn því nú sofa Íslendingar á sínu græna að morgni átjánda júní. Átjándinn er auðvitað næstum því jafn merkilegur því þann dag var Paul McCartney fæddur fyrir 64 árum. ÞIð vitið hvað það þýðir; allir munu syngja When I'm 64. Og við munum segja, Já Paul, we still need you.
Í dag hitti ég Íslendinga og Vestur Íslendinga í Ottawa sem eru ekki mjög margir miðað við slétturnar og vesturströndina. Haldinn var fagnaður heima hjá einum Íslendingnum sem býr í fallegu húsi við vatn (sem ég held að heiti Mississippi vatn). Þar voru víst um 60 í dag. Fáni var dreginn að húni, þjóðsöngurinn sunginn og svo var borðað.
Ég er núna búin að vinna fyrstu vikuna mína og það hefur bara gengið vel. Nemandinn er býsna góður og gengur alveg ágætlega. Hún hefur reyndar þurft að fara nokkuð á fundi o.s.frv. þannig að ég hef þrisvar sinnum fengið frí eftir hádegið sem hefur verið ákaflega gott. Einu sinni fór ég að versla, einu sinni fór ég að klifra og einu sinni var ég túristi og labbaði um borgina og tók myndir. Hún verður meira við í næstu viku þannig að ég mun þurfa aðeins meira að vinna. Erfiðast er að þurfa að vakna hálf sjö á morgnana. Ég hef ekki þurft að gera það í mörg ár. Heima í Vancouver vakna ég bara þegar ég er útsofin sem oftast er um níu leytið. Það sem erfiðast er er að þurfa að fara í snögga sturtu, rífa í sig matinn og rjúka út. Ég er vön að geta dundað mér á morgnana. Lesa tölvupóstinn minn, sinna ýmsum smá munum, o.s.frv. En þetta venst sjálfsagt eins og annað. Verst er að ég er orðin dauðþreytt eldsnemma.
Ég mun segja ykkur meira frá kennslunni og borginni seinna. Núna verð ég að fara að sofa .
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.