Skattatími

Ég er á síðasta snúningi með skattskýrsluna mína eins og oft áður. Málið er að íslenskar skattskýrslur eru eins og reikningsbók þriðja bekkjar miðað við skýrslurnar sem við þurfum að fylla út í Kanada. Ekki er það aðeins að við þurfum að reikna út bæði landsskatt og fylkisskatt, heldur þurfum við í orðsins fyllstu að reikna þetta allt út sjálf (margalda með mismunandi prósentum, draga frá tölur sem maður veit ekki einu sinni hvað tákna o.s.frv.). Þannig eru línurnar sem þarf að fylla mörg hundruð, formin fjölda mörg (ég þarf að fylla út 5—10 blaðsíður—og mín skýrlsla er líklega eins einföld og hægt er) og allt er þetta hvert öðru flóknara. Þetta er sennilega sjöunda árið sem ég þarf að fylla út skattskýrslu hér og ég held ég hafi aldrei gert það rétt. Vanalega reiknast mér svo að ég skuldi skattinum svo ég skrifa tékka og sendi með en fæ hann næstum alltaf til baka því ég gerði eitthvað vitlaust og í raun skuldar skatturinn mér. Sem er auðvitað mjög gott. Að þessu sinni reiknast mér svo að skatturinn skuldi mér en ég er næstum sannfærð um að það sé rangt því hluti af peningum mínum á síðasta ári var námsstyrkur og þar er skatturinn ekki sjálfkrafa dreginn af manni. Þannig að ég hlýt að skulda. Nema ég hafi loksins talið frádráttarliði rétt fram. 

Annars var erfitt að komast af stað með skýrsluna. Fyrst vegna þess að þetta er ömurlegt verk og tekur langan tíma svo ég tímdi ekki tímanum sem færi í það. En svo þegar loksins ég ákvað að taka tíma í þetta þá fann ég ekki skýrsluna mína, né miðann frá skólanum um hvað ég hefði fengið í laun. Ég leitaði um allt. Fór í gegnum alla pappírsbunka sem ég fann en...ekkert. Ég varð loks að fara upp í skóla og fá útprent frá þeim, og síðan niður á pósthús og ná í aðra skýrslu. Það góða sem þetta hafði í för með sér var að ég lagaði til hjá mér og henti fullt af pappír sem ég þarf ekki á að halda. Það var auðveldara en að reyna að finna skýrsluna með því að færa til bunka. Á hinn bóginn dugði þetta ekki því ég hef aldrei fundið þessa skattpappíra. Ég setti þá greinilega á einhvern mjög góðan stað.

Nú á meðan ég skrifa þetta er ég að reyna að ljósrita skýrsluna til að eiga eintak en það gengur ekki mjög vel. Bölv. HP prentarinn minn er ömurlegur og er alltaf að flækja pappírinn. Ég veit ekki hversu oft ég hef látið falla ill orð um þennan prentara. Ég ætti í raun að kaupa nýjan en það er þægilegt að hafa skanna og ljósritara í sama pakkanum og þeir sem eru þannig og eru ódýrir virðast jafnmikið drasl.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Jamm, hér er allt fært fyrirfram inn á rafrænu skýrsluna - en samt er ég með endurskoðanda. Ég er með verktakalaun, seldi bíl og íbúð á síðasta ári og keypti tölvu. Ég ætla ekki að gera skýrsluna sjálf fyrr en ég verð komin á strípuð ellilaunin - og þá verður hvort eð er allt löngu komið í bara rafrænt.

Ég held að ég verði að samhryggjast þér í þessum raunum, téhéhé ...

Berglind Steinsdóttir, 22.4.2007 kl. 22:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband