Svolítið um verkefnið mitt

Þetta er einn af þessum rólegu dögum þar sem allt gerist nokkurn veginn á sama hátt. Vakna klukkan átta. Borða morgunverð (kaffi, beyglu, eina skál af niðurskornum ávöxtum) og lesa blaðið. Þetta tekur ýmist hálftíma eða klukkutíma. Í morgun var það klukkutími. Vinna í einhvern tíma á meðan ég læt renna í bað (elska bað - miklu betra en sturta). Fara í bað. Halda áfram að vinna fram að hádegi. 

Á föstudaginn fundaði ég með umsjónakennara mínum um það sem ég hafði verið að skrifa í ritgerðinni. Hann var mjög ánægður með það, sem er gott því honum hefur fundist ég ekki nógu fókuseruð upp á síkastið. Það hefur ekki vantað að ég skrifaði, en honum fannst ég eyða of miklum tíma í að velta mér upp úr smámerkingarmun á milli setninga. Mér finnst hins vegar þessi fíni merkingarmunur mjög mikilvægur. Hvers vegna er það til dæmis að þegar maður segir, Jón er alltaf lærandi, þá er ákveðin neikvæðni þrungin í setningunni? Neikvæðara en ef maður segir Jón er alltaf að læra. Málið er hins vegar að ef ég ætla að útskýra öll smáatriði þá verður þessi ritgerð mörg hundruð síður og tekur þá væntanlega mörg ár að skrifa. Þannig að ég reyni að einbeita mér að því sem ég á að vera að gera; útskýra framvinduhorf. 

Fyrir þá sem ekki vita, en eru enn að lesa þetta, þá er framvinduhorf það þegar ákveðinn atburður er í gangi, svona eins og þegar við segjum Jón var að borða epli þegar ég sá hann. Hér sjáum við tvo tíma. Tímann þegar ég sá Jón, sem er kallað 'reference time', hugsanlega 'tilvísunartími' á íslensku. Svo er það tíminn þegar Jón er að borða, 'atburðartíminn'. í framvinduhorfi er tilvísunartíminn innan atburðartímans, þ.e. Þegar ég sá Jón var hann þegar byrjaður að borða epli og að öllum líkindum hélt hann áfram að borða epli eftir að ég sá hann. Er þetta flókið? Kannski ekki skrítið, merkingarfræði er aldrei auðveld. 

En ef ykkur finnst þetta flókið þá get ég sagt ykkur að það versnar þegar maður fer svo að nota formlega rökfræði til þess að lýsa setningum. Hér fyrir neðan getið þið séð hluta af afrekstri morgunsins. Þetta er setningin John is kissing Mary (Jón er að kyssa Maríu):

 


 

Formlega rökfræðin er enn minn veikasti punktur í merkingarfræði. Sem er ástæða þess að ég ætla að taka sumarnámskeið í rökfræði hjá heimspekideildinni. Gallinn er að ég óttast að ég græði ekkert á því vegna þess að þeir kenna aðallega það sem kallast propositional logic og predicate logic og síðan fara þeir út í sannanir á þeim formúlum. Það sem mig vantar fyrst og fremst, hins vegar, er rökfræðin sem kemur þar á eftir. En það sakar ekki að sitja kúrsinn og sjá hvort ég læri eitthvað.

Ég hef sem sagt setið í morgun og skrifað upp formúlur eins og þessar. Það sem ég þarf að útskýra núna er hvers vegna a) ástandssagnir eru vanalega ekki í framvinduhorfi, og b) hvers vegna það er að aukast (Ég er að elska þetta lag). Það eru ýmsar skýringar til á fyrri spurningunni en enginn hefur getað svarað báðum spurningunum almennilega með einni kenningu. Allar kenningar sem geta svarað a lenda í vandræðum með b. Ég hef ákveðna hugmynd og nú verð ég að skella mér í að sjá hvort hún gengur upp.

Eftir hádegið mun ég sem sagt gera það sama og ég geri alltaf eftir hádegi ef ég fer ekki að klifra, þ.e. skrifa skrifa skrifa, og taka svo pásur inn á milli og kannski fara út að labba. Veðrið er alveg yndislegt núna og sumarið í nánd. Það væri því ekki amalegt að sleikja upp svolítið af D vítamíni.

 
 
 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Björgvin

Hjálp! En er þá ekki aðalspurningin hvort að Jón elski Maríu, hafi elskað hana eða muni elska hana fyrst hann er að kyssa hana.

Pétur Björgvin, 23.4.2007 kl. 20:15

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Góður punktur Pétur. Hins vegar er það nú orðið þannig að fólk er farið að kyssa þennan og hinn án þess að nokkur ást sé til staðar.

Þegar ég var á öðru ári í íslensku notaði setningafræðikennarinn minn (Höskuldur) setninguna: "Jón strýkur Maríu" (eða eitthvað svoleiðis). Þá sagði einn strákurinn í bekknum, sem var svolítill gosi: Bíddu bíddu Höskuldur. "Í fyrsta árs kúrsinum í fyrra var Jón bara að kyssa Maríu, nú er hann farinn að strjúka henni líka." Höskuldur svaraði að bragði: "Já, já, þetta er framhaldskúrs."

Kristín M. Jóhannsdóttir, 23.4.2007 kl. 20:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband