Rokk í Reykjavík

Ég er að horfa á þáttinn hans Jóns Ólafssonar frá síðustu viku; þennan sem fjallaði um Rokk í Reykjavík. Mér finnst virkilega gaman að þættinum en reyndar finnst mér Jóni hafa tekist ótrúlega vel upp almennt í vetur. Það hafa verið fáir þættirnir hans sem mér leiddist. 

Pönk bylgjan var auðvitað alveg stórmerkileg á sínum tíma þótt sjálf hafi ég verið í það yngsta til að hafa gaman af því sem þar gerðist. Var nýbúin að uppgötva Bítlana og hafði miklu meira gaman af því sem gerðist áður en ég fæddist en því sem var að gerast í kringum  mig. Tíu-ellefu ára er maður svo sem ekki beinlínis frumlegur í hugsun.

En það var virkilega gaman að sjá þessa búta sem sýndir voru í  þættinum; flest hef ég séð oft og mörgum sinnum áður en það er orðið nokkuð langt síðan síðast. Það sem var kannski merkilegast var að sjá þessa krakka sem tóku  þátt í  myndinni á sínum tíma, koma saman aftur í tilefni þessa þáttar, orðnir miðaldra karlar, og spila saman á ný. Einhvern veginn var pönkið barn síns tíma og það var svolítið skrítið að sjá miðaldra karla standa uppi á sviði og öskra. Og ég er ekki að segja að  það sé almennt skrítið. Ég fór sjálf að sjá Rollingana í vetur, enn eldri karla standa uppi á sviði og öskra. Ég held það sé fyrst og fremst pönkið sem mér finnst skrítið að sjá í dag. Kannski vegna þess að flestir þeir sem tóku þátt í pönkbylgunni á Íslandi voru svo ofsalega ungir, en kannski vegna þess að ég man sjálf svo vel eftir þessu tímabili. 

En flott hjá þeim að vera farnir að spila aftur 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Þátturinn var góður, missti því miður af byrjunar atriðinu þegar pabbi heitinn (Sveinbjörn Beinteinsson ) flutti rímur. Á samt samt að sjálfsögðu myndina á vídeó. Sjálfur greip ég pönkið strax, en þó sérstakleg svokallað post-punk sem kom í kjölfarið á pönkinu og var oft töluvert aðgengilegri músik en ekta pönk.

Georg P Sveinbjörnsson, 28.4.2007 kl. 21:04

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ertu sonur Sveinbjörns heitins? Vá. Það var rosalega skemmtilegt að sjá hann í upphafi þáttarins. Reyndar hélt þegar ég sá hann að Jón ætlaði að hafa þátt um kveðskap og rímnasöng en það var nú ekki. Vildi gjarnan sjá slíkan þátt því þau lög eru auðvitað mikilvæg sem bakgrunnur íslenskrar tónlistar.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 28.4.2007 kl. 23:08

3 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Já, takk....hefði verið gaman að sjá slíkan þátt með vel völdum kvæðamönnum og kannski  líka orðhaga rappara með

Georg P Sveinbjörnsson, 29.4.2007 kl. 18:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband